VARASAMT AÐ SELJA VÉLAMIÐSTÖÐ
Vélamið-
stöð Reykja-
víkur var sett á laggirnar árið 1964. Fyrir réttum þremur árum, í júlíbyrjun 2002 var stofnunin gerð að hlutafélagi í eigu Reykjavíkurborgar og Orkuveitunnar. Síðastliðið haust var ákveðið að selja hlutafélagið og er nú svo komið að það hefur verið auglýst til sölu. Ekki tel ég þetta vera skynsamlegt, sérstaklega við þær aðstæður sem nú eru uppi. Ástæðan er sú að jafnvel þótt einhver samkeppni kunni að verða fyrst í stað (sem þó er ólíklegt) með leigu á tækjum til sorphirðu og annarra verkefna sem Vélamiðstöðin sinnir fyrir borgarbúa, þá er sú hætta mjög raunverulega fyrir hendi að þegar fram líða stundir muni sækja í einokunarhorf, einfaldlega vegna þess að í mörgum tilvikum er um sérhæfð verkefni að ræða og kostnaðarsamt fyrir hugsanlega samkeppnisaðila að koma sér upp nauðsynlegum vélakosti til að taka þátt í samkeppni. Kaupandinn, það er að segja Reykjavíkurborg, yrði þess vegna í greipum hins einokandi aðila.
Eftir því sem ég hef kynnt mér hefur Vélamiðstöðin aldrei verið baggi á borginni. Þvert á móti hefur hún fært borgarbúum drjúga búbót og skilað arði í borgarsjóð. Gróðavon mun nú að öllum líkindum leiða til þess að einhverjir svari kalli og reyni að komast yfir þessa eign. Það er ástæða fyrir borgaryfirvöld að fara með mikilli gát. Á íslenskum fyrirtækja- og fjármálamarkaði eru völd og auður að færast á sárafáar hendur. Við slíkar aðstæður á að fara enn varlegar í sakirnar en ella þegar um er að ræða sölu á almannaeignum. Reykjavíkurborg er ekki skuldbundin að taka neinu tilboði sem berst. Við væntum þess að borgin muni hafa langtímahagsmuni borgarbúa í huga og jafnframt þær sérstöku aðstæður sem skapast hafa í fjármálalífinu.
sjá nánar: http://www.velamidstod.is/