Fara í efni

VATN FYRIR ALLA

Viðskiptablaðið er skemmtilegt blað og á skilið mikla útbreiðslu. Ekki endilega vegna þess að skoðanir blaðsins séu eftirsóknarverðar. Almennt séð eru þær það ekki. Heldur vegna hins að á blaðinu eru skemmtilegir pennar, bæði hinir föstu og einnig gestapennarnir. Ég gef mér að Birgir Tjörvi Pétursson sé gestapenni. Hann skrifar í síðustu útgáfu blaðsins grein, sem ber sömu yfirskrift og ég gef þessari, „Vatn fyrir alla.“ Grein Birgis Tjörva er um margt ágæt nema hvað að niðurstöður hans orka nokkuð tvímælis.

Birgir Tjörvi skilur ekkert í því að samtök á borð við BSRB skuli vera að beita sér í þágu þess að vatn verði skilgreint sem almannaeign en ekki sem hver önnur verslunarvara. Ég velti því fyrir mér hvort að Birgir Tjörvi hafi kynnt sér afleiðingar þess að einkavæða vatnsveiturnar. Þetta hefur verið gert víða í þeim löndum sem standa okkur nærri, Bretlandi, Frakklandi og víðar. Einnig hefur vatnið verið einkavætt í ríkjum þriðja heimsins. Nánast alls staðar hefur þetta verið til ills. Sannast sagna er ég svolítið undrandi á því að skríbent Viðskiptablaðsins hafi ekki kynnt sér þessar hliðar málsins. Honum finnst greinilega skipta mestu að á Íslandi sé nóg vatn, hvaða rellu menn yfirleitt þurfa að gera sér út af vatni. Mín tilfinning er sú að Birgir Tjörvi vilji vera sanngjarn. Þess vegna hika ég við að segja að mér finnist jaðra við að málflutningur hans sé utan af þekju. Þegar hann furðar sig á því að BSRB beiti sér gegn einkavæðingu á vatni þá vil ég upplýsa hann um að einkavæðing á vatni hefur nánast alls staðar leitt til hærra verðlags til neytenda og lakari starfskjara þeirra sem sinna þessari þjónustu. Þeir sem hér eiga hlut að máli eru félagar í samtökum á borð við BSRB, sem eru bæði neytendurnir og veitendurnir. Hvers vegna ætti Birgi Tjörva að finnast undarlegt að BSRB beiti sér í þágu þessa fólks? Þegar allt kemur til alls eru þetta félagar í BSRB. Baráttan um vatnið er þó mikilvægari en svo að hún taki aðeins til okkar hér og nú. Ákvörðun um eignarhald á vatni skiptir framtíðina líka máli. Hún skiptir allt samfélagið máli um alla framtíð. Gæti verið að Viðskiptablaðinu og skríbentum þess finnist aðeins leyfilegt að hafa skoðun og berjast fyrir sannfæringu sinni að maður sé að berjast fyrir þröngum eiginhagsmunum? Það er til marks um lifandi réttlætiskennd að vilja varðveita umhverfið og þar með vatnið sem eign okkar allra. Sú hugsun að náttúruauðlindum eigi að ráðstafa í þágu samfélagsins alls fær góðan hljómgrunn hjá þjóðinni. Til marks um það er sá breiði stuðningur sem þessi krafa fær. Þegar hafa á annan tug stofnana og samtaka fylkt sér að baki henni. Það er mikið ánægjuefni. Verst er að ríkisstjórnin skuli enn berja höfðinu við steininn og neita að hlusta á rödd þjóðarinnar í þessu efni. Þau lagafrumvörp um eignarrétt á vatni, sem nú liggja fyrir Alþingi, styrkja eignarrétt einkaaðila og ganga þvert á þær kröfur sem nú hljóma, ekki aðeins hér á landi heldur um allan heim, frá samtökum launafólks og almannasamtökum, að vatnið skuli um alla framtíð vera okkar allra.