Fara í efni

VATN FYRIR ALLA


Vatnalögin frá 2006 voru endurskoðun á lagabálki sem að uppstöðu á rót í lögum frá 1923. Með lagabreytingunum 2006 hélt þáverandi ríkisstjórn því fram að hún væri að uppfæra þessi gömlu lög í samræmi við dómapraxís 20. aldarinnar - í raun væri ekki verið að breyta neinu þótt einkaeignarhaldsrétturinn væri styrktur í lögunum.
Við sem gagnrýndum lagabreytingarnar sögðum hins vegar að rétt væri að endurskoða lögin, en á öðrum forsendum: Í samræmi við þau sjónarmið sem í auknum mæli væru nú að ryðja sér til rúms um almannaeign á vatni. Þann rétt ætti að styrkja í lögum og auk þess binda í stjórnarskrá. Eftir miklar umræður á Alþingi 2006 tókst okkur, sem þá vorum í stjórnarandstöðu,  að ná þeirri málamiðlun að gildistöku laganna var frestað þar til lögin hefðu verið endurskoðuð að nýju. Það verk hefur enn ekki verið klárað.
Þá er spurningin, ætla menn að nema lögin alveg úr gildi eða slá gildistökuákvæðinu enn á frest. Annað hvort verður að gerast og mun gerast. Best væri að afnema lögin. Næstbest að fresta gildistöku þeirra þar til nýr lagabálkur er orðinn til. Við skulum ekki gleyma því að núverandi lög þarfnast endurskoðunar.
Í Frjálsum pennum hér á síðunni er ákall frá Páli H. Hannessyni um varanlegt afnám vatnalaganna frá 2006. Páll H. Hannesson skipulagði og annaðist samræmingu í herferð verkalýðshreyfingar og frjálsra félagasamtaka í aðdraganda umræðu um vatnalögin sem síðan voru samþykkt 2006 með fyrrgreindum fresti á gildistöku. Þessi herferð var undir herhvötinni: VATN FYRIR ALLA.
Þetta verk annaðist Páll H. Hannesson sem starfsmaður BSRB en þau samtök stóðu í fararbroddi í þessari baráttu. Ég er sannfærður um að ef ekki hefði komið til barátta BSRB á þessum tíma hefðu lögin frá 2006 farið í gegn fyrirvaralaust. Að flestum, ef ekki öllum ólöstuðum, gekk Páll H. Hannesson, skipulegast fram í málafylgju um þetta málefni og hefur verið óþreytandi í því að halda á lofti kröfunni um að almannaréttur á vatni eigi að vera stjórnarskrárbundinn. Í pistli sínum birtir Páll yfirlýsinguna VATN FYRIR ALLA: https://www.ogmundur.is/is/greinar/pall-h-hannesson-skrifar-vatnid-og-truverdug-leikinn