Veðjar á aldraða
Jóhann Óli Guðmundsson er eigandi Frumafls sem aftur er einn aðaleigandi Öldungs hf sem hefur gert samning til langs tíma við ríkið um rekstur dvalarheimils fyrir aldraða við Sóltún í Reykjavík. Í Fréttablaðinu á mánudag kemur fram að Jóhann Óli telur sig kominn í mikla gullnámu með samninginn við ríkið upp á vasann og segir blaðið augljóst að hér eftir muni hann “veðja á aldraða”. Menn rekur eflaust minni til að fyrir um tveimur árum ætlaði Jóhann Óli að beita áhrifum sínum innan Lyfjaverslunar Íslands í þá veru að hún keypti af honum Frumafl fyrir 860 milljónir króna. Með öðrum orðum, þannig mat Jóhann Óli samninginn við ríkið. Mörgum fannst ógeðfellt í meira lagi að braska með rekstrarsamninginn á þennan hátt. Innan stjórnar Lyfjaverslunar Íslands fannst mörgum þetta líka óheyrilega hátt verð.
“Gífurlegur fjárhagsávinningur”
Samkvæmt frásögn Fréttablaðsins er svo að skilja á Jóhanni Óla að nú þakki hann sínum sæla fyrir að salan fór ekki fram. Öðru máli hljóti að gegna um þá sem höfnuðu kaupunum því þeir hafi farið á mis við “gífurlegan fjárhagsávinning”. Þennan gífurlega fjárhagsávinning, sem Jóhann Óli nefnir svo, afhenti ríkisstjórnin honum fyrir hönd íslenskra skattborgara. Þeir sem vilja kynna sér málin betur geta flett upp á síðu 400 í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar. Þar er listi yfir framlag ríkisins til dvalarheimila aldraðra. Öldungur er ekki á þessum lista en til skýringar segir að þarna séu sett upp í töflu”öll hjúkrunarheimili nema Sóltún í Reykjavík en það heimili fær framlög samkvæmt sérstökum samningi. Á Sóltúni eru 92 hjúkrunarrými og heildargjöld eru áætluð 679 milljónir króna á næsta ári miðað við fulla nýtingu, þar af eru 102 m.kr. vegna húsnæðiskostnaðar.” Framlagið til Öldungs er að hlutfalli til miklu hærra en til allra annarra hjúkrunarheimila. Þannig kemur t.d. fram að Sólvangur í Hafnarfirði, með 96 hjúkrunarrými, fær 453,2 m. kr.
Þjóðin höfð að féþúfu
Hvernig skyldi Ríkisendurskoðun skýra þennan mikla mismun? Skýringu Ríkisendurskoðunar er að finna í úttekt sem gerð var á Sóltúnssamningnum að frumkvæði undirritaðs í mars árið 2001. Á blaðsíðu 79 í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar segir eftirfarandi um hvers vegna Öldungur hf fái miklu meira til reksturs Sóltúnsheimilisins en önnur dvalarheimili aldraðra fá í sinn hlut: Þau “eiga að jafnaði ekki að sýna hagnað af starfsemi sinni. Að sjálfsögðu á slíkt ekki við um hlutafélög og aðra sambærilega einkaaðila á borð við Öldung hf. Forsvarsmenn félagsins hljóta að gera eðlilegar kröfur um hagnað af starfsemi fyrirtækisins.” Þetta finnst Jóhanni Óla, eiganda Frumafls, án efa vera vel að orði komist. Og sjálfur segist hann vonandi geta “ lagt lóð á vogarskálar aukins einkarekstrar innan heilbrigðisgeirans á komandi árum.”
Sú spurning sem íslenska þjóðin verður að spyrja sjálfa sig er hvort hún vilji framhald á þessari stefnu. Getur það verið að fólk muni sætta sig við að láta hafa sig að féþúfu á þennan hátt? Því á ég erfitt með að trúa. Sem betur fer styttist nú tíminn til Alþingiskosninga.