VEGAGERÐIN: VEL SMURÐ VÉL
11.07.2011
Það var traustvekjandi að fylgjast með fumlausum og markvissum viðbrögðum Vegagerðarinnar strax og fréttir bárust af því að hringvegurinn hefði rofnað við hlaup í Múlakvísl. Þegar í stað voru sérfræðingar Vegagerðarinnar að störfum, kallaðir voru út menn úr sumarfríi, hvort sem þeir voru í hestaferð, sólarlandaferð eða annars staðar. Þá var athyglisvert að sjá að í birgðastöðvum Vegagerðarinnar er að finna stálbita og annað byggingarefni sem sérstaklega hefur verið haldið til haga til að grípa til við aðstæður sem þessar.
Á leið austur. Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra, Svanur G. Björnsson svæðisstjóri Vegagerðarinnar á Suðurlandi, Hreinn Haraldsson vegamálastjóri, Einar Hafliðason forstöðumaður brúardeildar Vegagerðarinnar og Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra.
Almannavarnir voru einng í viðbragðsstöðu frá því að hlaupsins varð vart til að tryggja öryggi og hafa allir hlutaðeigandi aðilar samhæft krafta sína frá fyrstu stundu. Þar gegnir innanríkisráðuneytið lykilhlutverki því undir það heyra almannavarnir, löggæsla,Vegagerðin og samskipti við sveitarstjórnir.
Í dag sendi innanríkisráðuneytið frá sér fréttatilkynningu þar sem meðal annars er svarað ómaklegri gagnrýni á hendur Vegagerðinni. Sú gagnrýni er hins vegar undantekningin frá reglunni því í mín eyru ljúka flestir - og allir sem til þekkja - upp lofsorði á framgöngu Vegagerðarinnar.
Ýmsir vildu sjá gröfur að verki frá fyrstu mínúntu. Miklu meira er hins vegar um vert að framkvæmdaaðilar leggi skipulega niður fyrir sér hvernig vinna eigi verkið og síðan sé framkvæmt. Þá rís brú sem heldur. Öfug röð er ekki vænleg til árangurs.
Sjá yfirlýsingu innanríkisráðuneytisins: http://www.innanrikisraduneyti.is/frettir/nr/27213
Viðtal við Einar Hafliðason brúarhönnuð í kvöldfréttum RÚV. Viðgerð er hafin, verið er að ýta upp vegi að nýju brúarstæði og efni í bráðabirgðabrú er komið á staðinn.