Veikleiki utanríkisráðherra.
Í sunnudagsblaði Fréttablaðsins situr Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og formaður Framsóknarflokksins, fyrir svörum. Víða er komið við. Á meðal annars er rætt um Íraksmálið. Vísað er í hremmingar Tonys Blairs í Bretlandi en breski forsætisráðherrann sætir nú sem kunnugt er vaxandi gagnrýni fyrir að hafa ekki komið hreint fram gagnvart þjóð og þingi þegar hann talaði fyrir árás á Írak. Fyrir bragðið hafi dregið úr fylgi við hann. Halldór er spurður hvort hann hafi ekki sjálfur tekið skakkan pól í hæðina.
Utanríkisráðherra Íslands er nú aldeilis ekki á þeim buxunum.: "Nei, það finnst mér alls ekki. Það sem menn tapa á reynist ekki alltaf vera rangt." Þetta er vissulega rétt hjá Halldóri Ásgrímssyni. En stundum leiðir reynslan í ljós að menn hafa rangt fyrir sér og nú er að koma á daginn að beitt var lygum og blekkingum bæði í Bandaríkjunum og Bretlandi í Íraksmálinu. Halldór Ásgrímsson virðist hafa farið varhluta af þessari umræðu og skulum við í því samhengi ekki gleyma því að hann og ríkisstjórn Íslands studdu árásina á Írak fyrst og fremst á þeirri forsendu að Írakar byggju yfir gerðeyðingarvopnum og væru heimsbyggðinni hættulegir. Í sunnudagsblaði Fréttablaðsins fjölyrðir Halldór ekki um gereyðingarvopn en segir: "Það liggur fyrir hvað var að gerast í Írak. Þar var stjórnað með harðræði og ótta og hinn almenni borgari gat ekki verið öruggur um líf sitt enda hafði harðstjórinn drepið hundruð þúsunda eigin borgara. Kemur okkur ekkert við hvað gerist í öðrum löndum?"
Jú, Halldór Ásgrímsson, okkur kemur það við. En ekki nóg með það, við eigum að vera menn til að horfa einnig í eigin barm í þessu samhengi. Það er staðreynd að mannréttindasamtök víðs vegar um heim rekja barnadauðann í Írak (dauða "hundruð þúsunda eigin borgara") fyrst og fremst til viðskiptabannsins sem Bandaríkjamenn knúðu fram og Íslendingar, eða öllu heldur íslenska ríkisstjórnin, studdi. Finnst utanríkisráðherra Íslands ekki einu sinni umræðuvert að æðstu yfirmenn mannúðarhjálpar Sameinuðu þjóðanna þeir Denis Halliday og Hans von Sponeck skuli hafa sagt af sér til að mótmæla þjóðarmorði í Írak sem Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna, með stuðningi íslensku ríkisstjórnarinnar, var ábyrgt fyrir. Þarf ekki alla vega að ræða þetta. Á það endalaust að ganga að íslenskir ráðamenn skjóti sér undan ábyrgð og hvítþvoi hendur sínar á þann hátt sem utanríkisráherra leyfir sér jafnan að gera? Og hvað nú með yfirlýsingar Hans Blix sem stjórnaði vopnaleitinni í Írak fyrir hönd Sameinuðu Þjóðanna og sagði að "óþokkar" í Washington hefðu rægt sig og reynt að torvelda sínum mönnum störfin til að hafa sitt fram gagnvart Írökum? Hans Blix er enginn jábróðir Saddams Husseins. Það hefur margoft komið fram og hefur hann aldrei gefið mikið fyrir trúverðugleika ríkisstjórnar hans. Í Morgunblaðinu 12. júní sl.er orðrétt haft eftir Hans Blix: " Það er rétt að Írakar höguðu sér illa og höfðu engan trúverðugleika, en það þýðir ekki endilega að það sem þeir sögðu hafi verið rangt." Þegar allt kemur til alls er Halldór Ásgrímsson ekki eins upptekinn af réttu og röngu og hann lætur í veðri vaka.
Í umræðunni um Írak eru margar víddir. Einsog bent er á hér að framan hefur Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna verið gagnrýnt af æðstu starfsmönnum SÞ fyrir að beita írösku þjóðina harðýðgi. Sama gagnrýni hefur komið fram frá mannréttindasamtökum, verkalýðshreyfingu og ríkisstjórnum víðs vegar um heim. Fyrir Bandaríkjastjórn og bresku stjórnina var Öryggisráðið hins vegar alltof hægfara og var ákveðið að ráðast á Írak án samþykkis þess. En alltaf hafa hernaðarhaukarnir þó getað treyst á nokkra aðila; alltaf hafa þeir getað gengið út frá því að tilteknar ríkisstjórnir og tilteknir einstaklingar myndu reynast þeim handgengnir. Það er dapurlegt að í þeim hópi skuli vera íslenska ríkisstjórnin með utanríkisráðherra í broddi fylkingar. Utanríkisráðherrann endurtekur alltaf sömu tugguna og hælir sér nú af því að hafa komist upp með þetta gegn þjóðarviljanum.: "Ég vissi að yfir 90 prósent kjósenda væru andvíg því sem Bandaríkjamenn og Bretar voru að gera í Írak. En ég hef engan rétt til að taka slíka afstöðu. Ég er ekki kosinn til þess. Ég er kosinn til að taka afstöðu til mála með þá yfirsýn sem ég hef að leiðarljósi og taka tillit til þeirra atriða sem ég hef upplýsingar um. Það gerði ég."
En varðandi "upplýsingarnar" sem utanríkisráðherra kveðst hafa búið yfir og þá "yfirsýn" sem hann hafi haft "að leiðarljósi" þykir mér mál til komið, ekki síst í ljósi framvindunnar síðustu vikurnar að hann upplýsi nánar um hvað hann eigi við. Erlendis eru stríðshaukarnir og fylgismenn þeirra nú spurðir út í þessi efni og látnir svara fyrir gjörðir sínar. Þótt flestar þær upplýsingar sem nú eru til umfjöllunar hafi fyrir löngu komið fram eru þær nú alls staðar teknar alvarlega af þjóðþingum og helstu fjölmiðlum. Það á því miður ekki við um Ísland hvað okkar eigin stjórnmálamenn varðar. Þeir komast upp með að loka sig inni í skel sinni. Við fyrstu sýn virðast þeir stjórnast aðeins af hroka sínum. En höfum þó hugfast að menn með vondan málstað forðast umræðu. Ég hef grun um að það eigi við um núverandi íbúa í Stjórnarráði Íslands.
Ég hef fylgst með yfirlýsingum Halldórs Ásgrímssonar utanríkisráðherra um þessi mál nokkuð náið í fjölmiðlum og kem ég ekki auga á að hann tali um málið af mikilli yfirsýn einsog hann sjálfur vill vera láta. Þvert á móti þykir mér þröngsýni einkenna viðhorf hans og ekki nokkurrar minnstu viðleitni gæta hjá honum að endurmeta afstöðu sína í ljósi nýrra upplýsinga og breyttra aðstæðna. Það er mikið veikleikamerki hjá stjórnmálamanni.