VEIT ALLT UM POPÚLISMA
Handrukkarar auðvaldsins. Það virðist orðið mikilvægasta hitamálið í stjórnmálum hér á landi að koma Alþjóða gjaldeyrissjóðnum "úr landinu". Ögmundur Jónasson hefur verið í fararbroddi þessarar fylkingar og notið stuðnings fyrrverandi stjórnenda Seðlabankans, leiðtoga Sjálfstæðisflokksins, Framsóknarflokksins og samtaka útgerðarmanna og annarra afla er stóðu að því að skuldsetja íslensku þjóðina og veðsetja auðlindir hennar upp fyrir háls. Þannig er Ögmundur Jónasson kominn í þá stöðu að verja hagsmuni þeirra sem bera ábyrgð í þessu máli, um leið og hann slær ryki í augu þjóðarinnar með því að telja henni trú um að sú regla sé ekki gild, að sá sem tekur að sér vörslu fjármuna annarra beri á þeim ábyrgð. Allir vita að stórir lífeyrissjóðir, sjúkrasjóðir og tryggingasjóðir og bæjarfélög í Evrópu tóku gylliboð íslenskra bankamanna trúanleg og fólu þeim varðveislu fjármuna sinna í trausti þess að ekki væri um glæpafélög að ræða. Annað kom síðan á daginn, og þeir sem eiga alla sök í þessu máli líta nú til Ögmundar Jónassonar sem helsta bjargvættarins er geti losað þá úr snörunni og komið henni á háls AGS sem táknmynd fyrir samsærisáform hins fjölþjóðlega kapítalisma gegn íslensku þjóðinni. Ef þetta er ekki popúlismi, þá veit ég ekki hvað það orð þýðir.
Ólafur Gíslason