Fara í efni

VEL HEPPNUÐ LÝTAAÐGERÐ ÞORGERÐAR KATRÍNAR

Ég horfði á Silfur Egils í dag og heyrði síðan fréttir seinna um daginn í sömu stöð. Þar var básúnað það sjónarmið Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, varaformanns Sjálfstæðisflokksins að henni hefði fundist of hratt farið í sameiningu Geysis Green og Reykjavík Energy Invest. Þá hefðu kaupréttarsamningarnir verið of háir. Því miður var Þorgerður Katrín ekki spurð hvort hún styddi það að undið yrði ofan af þessu alvarlega spillingarmáli sem áhöld eru um hvort standist lög. Hlustandinn fékk þá mynd í fréttum að varaformaður Sjálfstæðisflokksins vildi aðra stefnu varðandi einkavæðingu orkunnar. Þeir sem horfðu á Þorgerði í Silfrinu fengu allt aðra tilfinningu því þar kom skýrt fram að hún telur þessa þróun almennt í himnalagi. Yfirlýsingarnar virðast fyrst og fremst settar fram til að friða og sefa. Eins konar lýtaaðgerð til að fegra Sjálfstæðisflokkinn og gjörðir hans. Þetta gekk bærilega upp.
Síðan trommaði Eva María upp með Bjarna Ármannsson í sjónvarpsþætti sínum eftir fréttir en þar hafði verið auglýst viðtal við sr. Önnu Sigríði Pálsdóttur. Bjarni fékk þarna tækifæri til að setja á mikla réttlætingarþulu fyrir gjörðum sínum. Mér fannst Evu Maríu fatast í dómgreind sinni þegar hún skipti á viðmælendum í þættinum. Hennar ágæti þáttur er ekki fréttaþáttur en tilefni skiptanna voru hins vegar greinilega fréttir vikunnar. Bjarni Ármannsson tengist mjög umdeildu máli og á að mínu mati ekki að fá hálftíma á "prime time" til að hafa áróður fyrir sjálfum sér. Er ekki nóg að hann fái hálfan milljarð í vasann á sjö dögum?
Haffi