VEL NOTAÐIR PENINGAR ERU VEL GEYMDIR
Birtist í nýútkomnum SFR-tíðindum
Íslendingar standa á tímamótum. Öllum er ljós sá mikli vandi sem þjóðin stendur frammi fyrir. Flestir gera sér líka grein fyrir því að framundan er tími endurmats. Yngsta kynslóðin er forviða. Hún þekkir bara sveifluna upp á við - alla vega þegar þjóðfélagið er skoðað í heild sinni. Hún hefur að vísu haft af því spurn að þjóðfélagið sé orðið harðneskjulegra en áður var og vissulega erfitt að vera tekjulítill og veikur. Fæstir af þessari kynslóð þekkja þetta þó af eigin reynslu og það breytir ekki heldur hinu að á undanförnum árum hafa margir höndlað gullið og séð inn í hina grænu skóga velsældarinnar.
Elsta kynslóðin man tímana tvenna
Elstu kynslóðinni koma erfiðleikar ekki á óvart. Hún man tímana tvenna og veit að lífið er ekki eilífur dans á rósum.
Á komandi árum mun þjóðin þurfa að takast á við samdrátt og axla gríðarlegar skuldaklyfjar. Hvernig sem á málum verður haldið þá er það óumflýjanlegt. Hitt sem þá snýr að endurmatinu er hvaða lærdóma við getum dregið af reynslu undangenginna ára. Hér kemur lífeyrissparnaðurinn fyrst upp í hugann. Í hruninu innan fjármálageirans hafa lífeyrissjóðirnir orðið fyrir gríðarlegum búsifjum. Nú þurfa gæslumenn þeirra að spyrja hvort sú hugmyndafræði sem þeir hafa starfað samkvæmt hafi verið réttt; hvort lögin sem tóku gildi árið 1997 standist nú skoðun. Þá var lífeyrissjóðunum gert að halda með fjármuni sína inn á markað og ávaxta sitt pund af eins mikilli áfergju og kostur væri. Með því móti yrði lífeyrisþegum best tryggð örugg framtíð.
Er hægt að geyma peninga?
Sjálfur hef ég oft efast um vísdóm þessarar lagasetningar. Efasemdir mínar hafa byggst á þeirri grunsemd að þegar allt kemur til alls sé ekki hægt að geyma peninga. Á ráðstefnu sem haldin var í BSRB húsinu til heiðurs fyrrum framkvæmdastjóra SFR, Gunnari Gunnarssyni, sem varð sjötugur á árinu ræddi ég álitamál sem þetta varðar og spurði á meðal annars þessarar grundvallarspurningar: „Er hægt að varðveita peninga?"
Mig langar til þess að nota þetta tækifæri til að vitna í vangaveltur mínar um þessa spurningu sem ég tel eiga brýnt erindi við okkur nú. „ Oft skín það í gegn að margir líta á lífeyrissjóðina sem sparibauk. Við leggjum peninga til hliðar og geymum þá þar til við þurfum á þeim að halda. Þetta sé eitthvað annað en gegnumstreymiskerfi þar sem ellilífeyrir er fjármagnaður með skattgreiðslum í núinu. Í reynd er minni munur á þessum kerfum en margir ætla. Því á endanum er einfaldlega um það að ræða - hvert sem kerfið er - að taka þarf peninga út úr efnahagslífinu. Spurningin er hversu aflögufært efnahagslífið er hverju sinni. Þetta þýðir að lífeyrissjóðirnir eiga allt sitt komið undir burðum efnahagslífsins.... Eftir stendur ábyrgð okkar á því skapa öflugt efnahagslíf sem rís undir væntingum framtíðarinnar. Áður synti verðtrygging íslensku þjóðarinnar í sjónum umhverfis landið, nú er atvinulífið fjölbreyttara og fleira komið til en sjávarauðlindin ein, allt þarf að dafna til að lífeyrisþegar framtíðarinnar endurheimti það sem þeir nú leggja til hliðar."
Lífeyrissjóðir til uppbyggingar
Á undanförnum árum hefur sú krafa risið hátt að lífeyrissjóðnunum beri að setja peninga sína í félagslega uppbyggileg verkefni. En hvernig? Fyrr á tíð voru stjórnvöld, nánast sama hvernig þau voru á litin pólitískt, líka á því að nýta peninga lífeyrissjóðanna til uppbyggingar og styrkingar innviðum samfélagsins. Annað hefur verið uppi á teningunum undanfarin ár. Ríki og sveitarfélög hafa ekki viljað taka lán. Þau hafa hins vegnar einkavætt án afláts og gjarnan viljað að lífeyrissjóðirnir tækju þátt í fjárfestingarbraski í einkavæddri velferðarþjónustu! Þetta er hins vegar samhengi sem er mér ekki að skapi. Annars vegar er lífeyrissjóðunum gert að starfa samkvæmt þeirri forsendu að útstreymið úr lífeyrissjóðunum, ellilífeyririnn skuli koma af vöxtum og arði fjárfestinga, Hins vegar starfa gæslumenn lífeyrissjóðanna af verkalýðsarminum samkvæmt þeirri hugsun að velferðarþjónustuna og aðra grunnþjónustu samfélagsins eigi ekki að reka með hagnaðarsjónarmið að leiðarljósi. Hér stöndum við því frammi fyrir þversögn.
Endurmetum kúrsinn
Í fyrrnefndu erindi mínu spurði ég af þessu tilefni hvort við þyrftum ekki að endurmeta kúrsinn: „Sú var tíðin að nánast allar fjárfestingar lífeyrissjóðanna gengu inn í félagsleg verkefni, uppbyggingu velferðarþjóðfélagsins - menn notuðu m.ö.o. fjármagnið til félagslegra þarfa hér og nú." Í framhaldi sagði ég að nátengd þessu væri spurningin um hvort hægt væri að geyma peninga: „ Er það yfirleitt hægt? Er hægt að geyma peninga? Þetta kann að virðast barnaleg spurning, jafnvel fáviskuleg. Auðvitað er hægt að geyma peninga, er eðlishvötin fljót að svara. En ef ég spyr einhvern hér inni, hvort hann geti geymt fyrir mig hundrað þúsund krónur, og látið mig fá þær aftur eftir 30 ár, þá skjóta allskyns flækjur upp kollinum. Menn myndu spyrja um skilgreiningar fyrst. Hvað þýðir að láta þig fá peningana aftur? Þýðir það sömu seðlana? Sömu verðmæti? Er það þá jafnmikið hlutfall af Mercedes Benz? Það er að segja gengistryggt í Evrum. Er það jafnhátt hlutfall af kaupinu mínu einsog það er í dag, burtséð frá kauphækkunum eða með kauphækkunum inniföldum? Er það miðað við kaupgetu innanlands, það er að segja verðtryggt miðað við innlendan kaupmátt? Get ég keypt jafnstóran hlut í íbúð fyrir peningana? Hvað með áhættuna? Fæ ég peningana örugglega tilbaka? Og ef ekki, hvað gerist þá? Get ég samið um að fá meiri peninga tilbaka en ég lét þig fá? Get ég látið peningana þjóna mér á meðan? Get ég notað þá til að byggja handa mér hús, sem ég get búið í og sem hækkar í verði? Get ég haft áhrif með peningunum mínum? Get ég bætt aðstæður fólks úti í heimi og um leið aukið verðmæti peninganna minna? Get ég breytt aðstæðum fólks á Vestfjörðum með peningunum mínum og um leið aukið verðmæti peninganna minna? Á ég að kaupa bláa Madonnu eftir Picasso og geyma andvirðið í bankahólfi, vitandi að listaverkavísitalan hefur hækkað mun meira á síðust 50 árum en allar aðrar vísitölur? Á ég að kaupa skóflu og grafa peningana úti í garði?"
Hámarksávöxtun er örugg ávöxtun
Auðvitað má til sanns vegar færa að hámarks ávöxtun eins og kveðið er á um í lögum er jafnframt örugg ávöxtun. Flestar ávöxtunarleiðir jafna hvor aðra út, sé litið til nógu langs tíma. Öll ávöxtunarleikfimi endar í sama punkti yfir langan tíma. Að þessu vék ég í áður tilvitnuðu erindi: „Fyrsta reglan í geymslu peninga, hlýtur (því) að felast í því að láta þá þjóna sér um leið og þeir vaxa. Til dæmis er ekkert vit að fá lánaða peninga til að kaupa hús og geyma svo sparnaðinn sinn í banka. Skuldsettur sparnaður er ekki mikil klókindi, nema því aðeins að sparnaðurinn skapi manni tekjur sem eru meiri en kostnaðurinn við skuldina. Það gæti til dæmis falist í að skapa atvinnu á heimaslóðum. Það gæti líka falist í að auka lífsgæði eigenda. Til dæmis með því að fjárfesta í bættri heilsugæslu og aðbúnaði fyrir aldraða. Skilar það arði? Það skilar arði ef markmiðið með sparnaðinum er að auka lífsgæði. Annars ekki. Í Hávamálum segir: Enginn skyldi fjár síns þörf þola. Það er að segja enginn skyldi gerast þurfamaður gagnvart sínum eigin fjármunum. Enginn skyldi þurfa að betla hjá sjálfum sér. Og síðan segir Oft fær leiður það sem ljúfum er ætlað. Margt fer verr en varir.
Heimurinn er hverfull, við getum ekki séð fyrir hvað verður eftir 30 ár. Það væri illt að vera búin að safna tíu þúsund milljörðum í lífeyrissjóð og deyja síðan öll úr fuglaflensu eða kjarnorkustríði."
Hvernig varðveitir samfélag peninga?
Þá vaknar sú spurning hvernig samfélag geymi peninga: „Eru góðir vegir álíka gáfuleg geymsla á peningum og grafa þá í jörð? Eru jarðgöng nútímaleg útfærsla á fjársjóðsgreftri? Eru innviðir samfélags arðbærir og hvernig er það mælt? Er menntun arðbær? Er vellíðan arðbær? Er jafnrétti arðbært? Er þá hægt að geyma peninga í innviðum, vellíðan, menntun og jafnrétti? Er þetta kannski ekki svona flókið? Á bara láta Sigurð Einarsson fá peningana og biðja hann að skila þeim eftir 30 ár? Á að láta hans dómgreind og kollega hans ráða? Láta þá svara spurningunum? Af hverju erum við að kvarta yfir því að það vanti þjónustu við gamalt fólk, þótt við eigum 1000 milljarða? Er það ekki gamla fólkið sem á peningana? Munum við líka kvarta yfir vondum aðbúnaði þegar við verðum gömul, jafnvel þótt sparnaðurinn okkar verði 2000 milljarðar? Eða 5000 milljarðar? Er eignin markmiðið, abstraksjónin, tilfinningin um eign? Gott að vita af peningunum? Þegar Berlínarmúrinn féll árið 1989, hlustaði ég á viðtal við gamla konu, íbúa í Austur-Berlín sem fagnaði þessum umskiptum ákaft. Hún var á tíræðisaldri og kvaðst ekki hafa nokkurn áhuga á að ferðast til Vestur-Berlínar. En hvers vegna ertu þá svona ánægð með fall múrsins, spurði fréttamaðurinn? Jú, það skal ég segja þér, sagði gamla konan, það er tilfinningin um að geta farið, hvenær sem ég vil. Það er frelsið."
Er samfélag jafnréttis og kærleika besti peningaskápurinn?
Staðreyndin er sú að Íslendingar hafa barið sér mjög á brjóst á undanförnum árum fyrir hve frábærlega vel við höfum staðið okkur í lífeyrismálum. „Við lesum um eignir lífeyrissjóðanna næstum daglega eða vikulega í blöðum. Við fyllumst stolti yfir styrk þeirra. Þúsund milljarðar, eittþúsundogfimmhundruð milljarðar. Við ætlum að geyma þá handa okkur. Við ætlum ekki að nota þá núna. Erum við að falla í sömu gildru og foreldrar okkar? Þau byggðu upp forsendur þessa auðs. Þau ákváðu að geyma sér peningana. En þau fá þá ekki. Við tímum því ekki. Þá verður ekki nóg handa okkur.
Getur verið að þetta sé feilhugsun? ... Okkur ber að spyrja hvort notkun peninganna sé hugsanlega besti mælikvarðinn á geymsluna; að ef þeir eru vel notaðir þá séu þeir vel geymdir og ef illa notaðir þá séu þeir jafnframt illa geymdir. Er þegar allt kemur til alls er þá samfélag jafnréttis, kærleika, dugnaðar, góðs aðbúnaðar fyrir sjúka, besti peningaskápurinn? Samfélag sem er vel fjármagnað af eigin sparnaði á lágum vöxtum, með háu atvinnustigi er arðbær fjárfesting. Samfélag sem skapar slíkan arð er örugg fjárfesting."
Kominn tími fyrir meiri auðmýkt?
Og áfram mátti spyrja: „Er ef til vill kominn tími fyrir innrás í stað útrásar? Eru íslenskir bankar tilbúnir í innrás til Vestfjarða? Tilbúnir til að hjálpa til að skapa gott mannlíf á Norðurlandi? Eru íslenskir bankar tilbúnir til að minnka? Tilbúnir til samráðs við samfélagið? Tilbúnir til að hlusta? Tilbúnir til að selja þoturnar og keyra um á Toyota Yaris og Nissan Micra? Vera hluti af þjóðfélaginu? Tilbúnir til aðeins meiri auðmýktar, skilnings, ábyrgðar? "Sá sem óskar eftir trausti almennings, verður að sætta sig við að vera eign almennings", sagði höfundur sjálfstæðisyfirlýsingar Bandaríkjanna, Thomas Jefferson.
Nú þurfum við peninga til að tryggja atvinnu, auka atvinnutækifæri. Nú þurfum við uppbyggingu innviða og bætt kjör.
Það gildir það sama um fjármálamenn og lopasokka að þá reynir fyrst á þá þegar veðrið versnar. Og nú þarf sannarlega að hysja upp um sig sokkana.
Þurfum við ekki öll að líta í okkar eigin barm? Lífeyrissjóðirnir og ekki síður bankarnir. Íslenskir bankar eiga að líta í sinn íslenska barm, fara sér hægt og minnka efnahagsreikninga sína. Fjárfestingakerfið í heild sinni þarf að huga að langtímaarði, að uppbyggilegu sjálfbæru atvinnulífi, að grasrótinni, að þorpunum á ströndinni, að mannlífinu eins og það er núna, ekki bara seinna. Það er lítið gagn í sparnaði ef lifað er undir fátæktarmörkum og jöfnuði og velferð fórnað.
Peningar eru vandmeðfarnir og fjársjóða er vandgætt. Hafa þarf auga með þeim allan sólarhringinn, alla daga ársins. Gæta þarf að dreifingu þeirra og notkun. Haft er eftir miklum spekingi: peningar eru einsog áburður, það þarf að dreifa þeim vel og jafnt, annars kemur lykt af þeim.... Við skulum ávallt muna að peningar eru góður þjónn en afleitur húsbóndi. Það er lítils virði að eiga stærsta olíusjóðinn ef það er tólf mánaða biðtími eftir nauðsynlegum uppskurði.
Nú er komið að skrefi tvö ef svo má segja. Okkur tókst að tryggja lífeyrisréttindi eftir okkar höfði. Nú þurfum við að tryggja að ráðstöfun sjóðanna verði eftir okkar höfði. Verkefnið framundan er að taka þá umræðu."
Tilefni til bjartsýni
Já, þessi orð eru ekki glæný en jafnvel brýnni nú en þegar þau voru sögð. Nú þarf að endurmeta kúrsinn. Spyrja þarf hvaða lærdóma við ætlum að draga af hruninu? Hvernig ætlum við að bera okkur að við að endurmeta stefnumiðin? Eitt er víst, við verðum að komast burt frá braskhugsun undangenginna ára. Sennilega er ekki hægt - þegar allt kemur til alls - að geyma peninga. Nema þá með því að nota þá vel. Með því að byggja upp réttlátt og traust velferðarsamfélag. Núna. Þá verða peningarnir okkar líka vel geymdir. Það er góð tilhugsun. Sú tilhugsun gefur okkur tilefni til bjartsýni. Á henni er nú þörf.