Fara í efni

VELJUM SKYNSAMLEGUSTU LEIÐIRNAR

Birtist í Morgunblaðinu 08.09.06.
Föstudaginn 30. júní ritar Sturla Böðvarsson samgönguráðherra grein í Morgunblaðið undir fyrirsögninni "Verðum að leita allra leiða". Greinin er svargrein við skrifum mínum þar sem ég gagnrýni ásetning ráðherrans um einkaframkvæmd í ýmsum vegaframkvæmdum sem framundan eru. Í grein sinni segir Sturla Böðvarsson: "Við megum ekki vera föst í einni aðferðafræði varðandi vegaframkvæmdir heldur verðum við að leita allra leiða til að ná sem mestri hagkvæmni við uppbyggingu og rekstur samgöngumannvirkja." Þessu er ég sammála og vildi óska að ráðherrann fylgdi sjálfur þessu heilræði.
Staðreyndin er því miður sú að á seinni árum hefur einkavæðing - hvort sem hún kallast einkaframkvæmd eða öðrum nöfnum - verið á dagskrá svo mjög að þau hagkvæmnissjónarmið sem ráðherrann kallar eftir hafa verið látin lönd og leið. Það verður hins vegar ekki sagt um skrif Halldórs Blöndals, fyrrverandi samgönguráðherra, í ágætri grein hér í blaðinu síðastliðinn mánudag. Hann rekur lið fyrir lið ókosti þess að fara út í einkaframkvæmd í samgöngukerfinu - með skýrum undantekningum - og get ég nánast gert hans málfutning að mínum.

Ríkisendurskoðun varar við einkaframkvæmd

Hið sama á við um skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í maí þar sem fjallað er um kosti þess og ókosti að nota einkaframkvæmdarformið við stórframkvæmdir á borð við Sundabraut. Ríkisendurskoðun segir Hvalfjarðargöng hafa verið sett í einkaframkvæmd vegna þess að pólitískar forsendur hafi ekki verið fyrir gerð ganganna. Hvorki hafi verið fólginn í því sparnaður né sé hægt að jafna Hvalfjarðargöngunum við aðra einkaframkvæmd af ýmsum ástæðum: "Niðurstaðan af því sem hér hefur verið rakið er því að framkvæmdir við Hvalfjarðargöng geta hvorki talist hrein einkaframkvæmd í venjulegum skilningi þess orðs né er ástæða til þess að ætla að einkaframkvæmd skili þar betri árangri en hefði hún verið unnin á vegum ríkisins með hefðbundnum hætti. Þá er heldur ekki hægt að draga þá ályktun að sérstök rök mæli með því að fela einkaaðilum gerð og rekstur Sundabrautar, hvort sem er 1. áfanga eða þeirra síðari, fremur en að ráðast í framkvæmdina með hefðbundnum hætti á vegum ríkisins."

Er ráðherra að festast í aðferðafræði?

Ef samgönguráðherra er í alvöru reiðubúinn að leita allra leiða til að finna hagkvæmustu lausnirnar við framkvæmd og fjármögnun vegagerðar væri mér sönn ánægja að senda honum þær skýrslur sem unnar hafa verið á vegum ýmissa rannsóknaraðila um kosti og galla einkaframkvæmdar þar sem hún hefur mest verið iðkuð, ekki síst í Bretlandi. Þar kemur í ljós að ríkisstjórnir á undangengnum hálfum öðrum áratug - og á það bæði við um ríkisstjórnir Íhaldsflokksins og þá ekki síður Verkamannaflokksins undir stjórn Blairs núverandi forsætisráðherra - hafa fylgt þessari stefnu á þeirri forsendu að hún hljóti að vera betri en bein ríkisframkvæmd eða útboð á vegum ríkisins. Þegar farið hefur verið í saumana á málunum og kostir og gallar vegnir hafa hins vegar komið í ljós mjög alvarlegir ágallar. Þrátt fyrir það hafa bresk stjórnvöld verið "föst í einni aðferðafræði" svo notað sé orðfæri Sturlu Böðvarssonar. Sú aðferðafræði er því miður sú sama og hann talar nú fyrir. Það er því vel við hæfi með tilvísan til málaflokksins, sem um ræðir, að beina eftirfarandi hvatningu til samgönguráðherra: Upp úr hjólförunum, veljum skynsamlegustu leiðirnar!