VELSÆLD MÆLD Í MEGAVÖTTUM
Það vantar sannarlega ekki á merkar yfirlýsingar nú í aðdraganda alþingiskosninga. Jóhannes Geir stjórnarformaður Landsvirkjunar til 10 ára fengi nokkuð örugglega bikar, ef um "markverðar" yfirlýsingar væri keppt, þegar hann í gær tjáði fréttamönnum, tárvotum augum að hann skildi ekki hvers vegna sér væri nú hafnað. Hann færi ekki fram á að fá að sitja nema ár til viðbótar sem stjórnarformaður. Hann bætti því síðan við að í sinni stjórnartíð hefði raforkuframleiðsla Landsvirkjunar í megavöttum talið tvöfaldast og hagsæld þjóðarinnar að sjálfsögðu samsvarandi!
Þetta minnir á viðhorfin og áróður í Sovétríkjunum í tíð Stalíns. Þá var fólki talin trú um að auknu framleiðslumagni talið í milljónum tonna fylgdi sjálfkrafa samsvarandi aukin lífsgæði. Við vitum hvernig fór og hvaða fórnir voru færðar í þeim efnum.
En hvernig má það vera að þessi sérskipaði fulltrúi Framsóknarflokksins í stjórnarformannssæti Landsvirkjunar til 10 ára, getur án nokkurra viðbragða fréttamanna haldið slíkum staðleysum fram?
Ljóst er að víða um heim má framleiða rafmagn með vatnsorku á mun hagkvæmari hátt en til stendur við Kárahnjúka. Kárahnjúkavirkjun er í reynd einhver dýrasta
lausn til öflunar rafmagns sem unnt var að finna. Ákvörðunin um virkjunina var hinsvegar tekin á pólitískum forsendum og öll áhersla lögð á hversu mörg störf sköpuðust með tilkomu álbræðslu á Reyðarfirði. Er nú svo komið í pólitískum blekkingarspuna að sömu aðilum helst uppi að fullyrða að hagsæld þjóðarinnar fari minnkandi á komandi árum, ef hlé verði gert á uppbyggingu álvera vítt og breytt um landið! Það er ekki að ástæðulausu að reynt er að halda verði raforku til stóriðju leyndri fyrir þjóðinni.
Nú ríður á að þessi þagnarmúr spillingarinnar verði rofinn. Einstakt tækifæri gefst 12. maí nk. til að fella sitjandi ríkisstjórn og setja í kjölfarið fram þá sjálfsögðu kröfu að upplýst verði um orkusölusamninga þá sem gerðir hafa verið á umliðnum árum.
Ísmann