Velvildargeislar Geðræktar
Geðrækt efndi til sérstaks geðræktardags fimmtudaginn 12. desember. Geðrækt er samstarfsverkefni fjögurra aðila um fræðslu- og forvarnarstarf en þeir eru: Landlæknisembættið, Geðhjálp, Geðsvið Landspítala Háskólasjúkrahúss (LSH) og Heilsugæslan í Reykjavík.
Í tilefni dagsins var boðað til fundar í Iðnó í Reykjavík. Sigurður Guðmundsson landlæknir flutti ávarp og Dóra Guðrún Guðmundsdóttir verkefnisstjóri flutti erindi um könnun sem gerð var á vegum Geðræktar um vitneskju fólks um samtökin og afstöðu til ýmissa þátta sem snerta geðheilsu okkar. Sannast sagna opnuðust augu mín á þessum fundi fyrir því merkilega starfi sem greinilega er unnið á vegum þessara samtaka.
Erindi Dóru Guðrúnar var í bland upplýsingar og mjög skemmtileg og hugvekja. Elín Ebba Ásmundsdóttir yfiriðjuþjálfi á Geðsviði LSH sagði frá svokölluðum geðræktarkössum og rakti sögu þeirra, hvernig móðir náði sundraðri fjölskyldu sinni saman með því að halda í vonina. Það gerði hún með því að gefa börnunum sínum litla kassa með hlutum sem áttu að hjálpa þeim að halda í vonina um að þau myndu öll sameinast aftur, en hún missti manninn sinn frá 10 börnum og þurfti að láta þau elstu frá sér.
Hvernig fara þingmenn að því að halda sinni sálarró var spurt, hvað myndu þeir setja í sinn geðræktarkassa, en allir höfðu þeir fengið frá Geðrækt lítinn kassa og áttu þeir að velja muni í kassann og gera grein fyrir vali sínu. Auk mín voru þær fengnar til þess að svara þessu Jónína Bjartmarz, Margrét Frímannsdóttir og Sólveig Pétursdóttir. Fimmti alþingismaðurinn, Ásta Möller var fundarstjóri. Margt skemmtilegt kom upp úr kössunum.
Jónína Bjartmarz sagði frá ömmu sinnu og jákvæðri afstöðu hennar til lífsins. Hún sagði okkur frá spakmæli sem hún hafði sett á ísskápinn sinn fyrir mörgum árum og væri þar enn en það er svohljóðandi: Sá er mikill maður sem ekki glatar virðingu barnsins síns. Menn skemmtu sér vel þegar Jónína tók varaskóreimar í gönguskóna sína upp úr kassanum. Greinilegt að hún vill hafa allt sitt á þurru!
Í kistli Sólveigar Pétursdóttur kenndi margra grasa en ef dæma skal af því sem hún tíndi upp úr honum þá er Sólveig augljóslega mikil fjölskyldumanneskja. Dómsmálaráðherrann minnti okkur einnig á með tónlistarvali að æska hennar er samofin blómaskeiðinu í kringum 1970. Sólveig fjallaði um mikilvægi átaks Geðræktar og tókum við öll undir með henni í huganum.
Margrét Frímannsdóttir sagðist eiga miklu stærri kistil heima hjá sér en þann sem hún nú hefði fengið frá Geðrækt. Yfir honum sæti hún stundum – þegar hún vildi vera ein með sjálfri sér. Í kassanum frá Geðrækt hefði hún gjarnan vilja geta haft og í fullri stærð þennan mann, sagði hún, og hélt uppi ljósmynd af eiginmanninum. Viðstaddir kunnu vel að meta þessa ástarjátningu Margrétar.
Einhverjir veltu því fyrir sér hvort munur væri á körlum og konum hvað geðræktarkassann snertir því þegar kom að undirrituðum gerðist frásögnin heldur ópersónulegri. Upp úr mínum kassa komu að sjálfsögðu geðorðin 10 en það eru spakmæli sem Geðrækt hefur gefið út á litlu korti þar sem við erum áminnt um að hugsa jákvætt; kerti kom einnig upp úr mínu boxi, þrjár plötur: Wynton Marsalis að leika á trompet konserta eftir Hayden og Mozart, Sigurrós, sem ég kynntist einu sinni í svefnrofunum – þá tók Sigurrós á móti mér þegar ég kom út úr draumalandinu og síðan hef ég verið mikill Sigurrósaraðdáandi - og síðast en ekki síst var plata með ljóðalestri Andrésar Björnssonar fyrrverandi útvarpsstjóra. Frábær ljóðalestur sem sefar geðið. Ekki dregur það úr aðdáun minni á Andrési Björnssyni að ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast honum náið þar sem hann var tengdafaðir
Síðari bókin er eftir Sigurjón Friðjónsson og heitir Skriftamál einsetumannsins. Sigurjón var uppi 1867-1950 og bjó að Litlulaugum í Reykjadal í Suður-Þingeyjarsýslu. Hann var heimspekilega þenkjandi, greinlega trúhneigður en afskaplega lítið gefinn fyrir hina veraldlegu umgjörð trúarinnar. Sigurjón var því ekki kirkjurækinn maður nema síður væri. Sigurjón sat á þingi 1918 til 1922 og lét að sér kveða í félagsmálum auk þess sem hann var þekktur fyrir skáldskap sinn. Skriftamál einsetumannsins er í uppáhaldi hjá mér og frábær finnst mér eftirfarandi texti sem fjallar um velvildina og hverju hún fær áorkað ef að baki henni býr þolinmæði og staðfesta: " Sólin vinnur ekki á ísunum, þegar hún byrjar að hækka á lofti. En þó fer svo að lokum, að þeir renna og verða að lífslindum sumarblómans. Líkt er því varið með kærleikann og mannssál, sem bundin er í klaka blindrar eigingirni. Stöðugir velvildargeislar vinna á þeim klaka að lokum og kenna manninum hvað lífið í fyllingu sinni er......."
Mín tilfinning er sú að Geðrækt starfi í anda þessara orða. Það þykir mér bæði jákvætt og virðingarvert.