VERÐMÆTI RADDA AÐ HANDAN OG HÉÐAN
Sæll Ögmundur.
Til hamingju með afmæli síðunnar. Höfum oft undrast það hjónin hve mjög þú leggur þig fram um að halda sambandi við umheiminn í skrifuðu máli. Þakka þér fyrir áminninguna um ríkisútvarpið sem þú birtir af gefnu tilefni. Menning er nefnilega merkileg skepna. Einn daginn áþreifanleg og lifandi í annan tíma fer hún með löndum. Dúkkar svo allt í einu upp og glóir sem gull. Mér kom í hug menningin Ögmundur á dögunum þegar ég heyrði viðtal við Erling Blöndal Bengtsson, cellóleikarann dáða. Hann var að segja frá uppvexti sínum og æsku, tengslunum við Ísland, og heimsóknina til landsins þegar hann var fjórtán ára og hélt tónleika í Gamla bíói. Svala Nielsen, frænka hans, sagði líka frá heimsókn hans til landsins strax að styrjöldinni lokinni, og Erling sagði frá hvernig Ragnar í Smára og tveir aðrir unnendur tónlistar lögðu sitt af mörkum til að ferðin yrði að veruleika. Í þættinum sagði hann frá einum velgjörðamanna sinna sem samið hafði lítið en afar fallegt lag, lag sem cellóistinn lék til heiðurs velgjörðamanni sínum inn á band árið 1953, ef ég man rétt. Ferðasagan, velgjörðamennirnir og lagið, allt glóði þetta sem gull í einhverjum þætti í útvarpinu. En er þetta ekki einnmitt gull Ögmundur? Ekki leikfang heldur gersemi? Þúsund svona molar, þúsund brot af menningu þjóðar eru geymd í ósýnilegum sjóðum ríkisútvarpsins. Þúsund brot sem geta hvenær sem er dúkkað upp og margfaldað verðmæti sín, eða er kannski hægt að meta þessa menningarsjóði til fjár? Fiðlan var bara sýnilegur hluti fyrir heild. Hlutur sem má verðleggja, en hver á upplestur Laxness? Hver á snilldartakta Gísla Halldórssonar og Baldvins Halldórssonar í útvarpsleikhúsinu svo dæmi sé tekið? Hver á upptökurnar af ómetanlegum þáttum úr þjóðlífinu á liðinni öld? Hver á allt þetta og hver greiddi fyrir framleiðsluna? Ætli viðskiptafræðingur á efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins hafi metið þennan sjóð? Eða viðskiptavildina sem honum fylgir? Eða ráðstöfunarréttinn yfir Halldóri Laxness, Baldvini Halldórssyni, Kristjáni Eldjárn, tónlistarmönnunum, leikurunum, röddunum, myndunum, þeim aldarspegli sem ríkisútvarpið ræður yfir. Hvers virði er að geta ráðstafað í hlutafélagi röddum almennigns og ómetanlegum menningarverðmætum sem eru þjóðarinnar? Mér finnst það slappt í meira lagi Ögmundur að þið stjórnarandstæðingar skulið láta ráðherra menntamála og “menningarmála” og viðskiptafræðing í fjármálaráðuneytinu komast upp með að “gleyma” að meta þennan metanlega þátt sem er í eigum þjóðarinnar en verður nú afhent einkafyrirtæki. Mér skilst á mönnum sem ég hef leitað til að sú lögboðna skylda hvíli á framkvæmdavaldinu að láta fylgja frumvarpi fjárhagslegt mat. Mat á þessum eignum ríkisútvarpsins, og þeirra sem nú eiga stofnunina, er hvergi að finna í fylgiskjölum með frumvarpinu um ríkisútvarpið hf. og ekki hef ég séð að menn gæfu gaum að þessu þrátt fyrir langar umræður og strangar. Menning er merkileg skepna. Hún er merkileg meðal annars vegna þess að hún á sér ekki andheiti. Menningin getur verið sögulaus eins og þjóð. Hún getur verið minnislaus eins og skáld, ráðherrar eða fyrrverandi ráðherra. Hvar eru nú allir þeir sem ættu að gera sér grein fyrir hrákasmíðinni sem er á frumvarpinu sem sagt er að sé frumvarp menntamálaráðherra? Er hugmyndin til dæmis sú að Páll Magnússon geti einn ráðstafað þeim eignum sem hér hafa verið gerðar að umtalsefni?
Kv.
Ólína