Verður lokað á heilabilaða á Landakoti?
Birtist í Mbl. 6. 01.2003
Fyrir jólin berst okkur mikið blaðaefni og hætt við því að sitthvað áhugavert fari fram hjá okkur. Föstudaginn 19. desember birtist í Morgunblaðinu afar góð og upplýsandi grein eftir Hönnu Láru Steinsson félagsráðgjafa heilabilunareiningar LSH á Landakoti. Vonandi hefur greinin náð athygli sem flestra. Í henni er fjallað um skerðingu á þjónustu við aldraða með heilabilun og vakin athygli á því að ekki standi til að opna eftir áramótin deild fyrir slíka sjúklinga sem lokað var, tímabundið að sögn stjórnvalda, í ágúst síðastliðnum.
Engin hætta er á því að allur sá fjöldi fólks sem málið varðar – og það eru ekki einvörðungu sjúklingarnir sjálfir – heldur einnig aðstandendur hafi látið grein Hönnu Láru fram hjá sér fara. Þetta fólk þekkir af eigin raun hve alvarlegt mál er hér á ferðinni. En lokun deildarinnar snertir fleiri en framangreinda. Í greininni kemur fram að þar sem eðli málsins samkvæmt hafi ekki verið hægt að senda sjúklingana heim hafi þeim verið komið fyrir á öðrum deildum sem svo aftur hafi haft keðjuverkandi afleiðingar í för með sér. Þetta hafi valdið miklu raski í starfsemi sjúkrahússins segir í grein Hönnu Láru. “Við bætist að þar sem bið eftir hjúkrunarheimili er svo löng í Reykjavík eru sjúklingarnir enn á þessum deildum þannig að þeir varna því að sjúklingar af bráðadeildum spítalans geti lagst inn til endurhæfingar.”
Samkvæmt upplýsingum félagsþjónustunnar í Reykjavík eru nú á biðlista 284 einstaklingar sem skilgreindir eru í mjög brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými og 111 eru í brýnni þörf fyrir dvalarrými. Á biðlistum eru hins vegar mun fleiri eða alls 565.
Það segir sig sjálft að við þessar aðstæður væri það mikið glapræði að skerða þá þjónustu sem þegar er fyrir hendi. Hana þarf þvert á móti að stórauka. Fylgst verður með því hvaða ákvörðun verður tekin af forsvarsfólki sjúkrahússins en fyrri loforð gengu út á að sú deild sem lokað var í ágúst yrði opnuð í byrjun janúar. Síðan hafa komið misvísandi yfirlýsingar en Hanna Lára Steinsson varar við því að við kunnum að standa frammi fyrir lokun til frambúðar. Það má ekki gerast.