Verkalýðshreyfing gegn skoðanakúgun
Tilraunir forsvarsmanna Útgerðarfélags Akureyrar til skoðanakúgunar eru forkastanlegar. Í lesendabréfi í dag brýnir Ólína verkalýðshreyfinguna til að rísa upp gegn yfirgangi útgerðarforstjóranna og tilraunum þeirra til að stýra starfsmönnum í kjörklefunum. Gefum Ólínu orðið, en hún segir m.a.: " Leiðarahöfundur fréttabréfs starfsmanna Útgerðarfélags Akureyringa gerði misheppnaða tilraun til að hræða starfsmenn fyrirtæksins til fylgis við Sjálfstæðis-og Framsóknarflokk. Ég velti fyrir mér Ögmundur af hverju menn taka sér þetta grímulausa vald og af hverju misbeita þeir því? Hafa menn aldrei heyrt af hverju það voru kennarar sem í öndverðu völdust til forystu í verkalýðsfélögunum? Vita menn ekki að þeir voru þeir einu sem ekki var hægt að reka fyrir að halda úti verkalýðsfélagi af því þeir voru æviráðnir og voru ekki í þeim skilningi háðir duttlungum, skoðunum og hagsmunum atvinnurekandans? ... Þarf ekki verkalýðshreyfingin öll að hugsa sinn gang í ljósi þess sem gerðist í frystihúsinu á Akureyri? Þarf verkalýðshreyfingin ekki að fara að hnykla vöðvana í samskiptum við bankastofnanir landsins og beita til dæmis afli lífeyrissjóðanna gegn tilraunum til skoðanakúgunar."
Ólína víkur að ýmsum öðrum þáttum í lesendapistli sínum. Í þessu samhengi má ekki gleyma því að fyrir ári beittu forstjórar stórútgerðarinnar á Akureyri áhrifum sínum til að koma í veg fyrir að Árni Steinar Jóhannsson, alþingismaður VG, talaði á Sjómannadaginn á Akureyri. Að þessu vék ég tveimur blaðagreinum. Önnur birtist í Morgunblaðinu og er hægt er að finna hana hér á síðunni undir Efnahagsmál frá 4/ 6, 2002. Sú grein ber titilinn, Dæmi hver fyrir sig.