Fara í efni

VERKALÝÐSHREYFINGIN: EKKI FRAMHALD Á ÓBREYTTU ÁSTANDI

Ráðstöfun 84 milljarða króna til að koma í veg fyrir að Glitnir verði gjaldþrota hljóta að fylgja skilyrði. Stjórnarmeirihlutinn á Alþingi verður að skilja að þessi fjárveiting verður ekki samþykkt umyrðalaust og án skilyrða.
Í fyrsta lagi hlýtur fjárfestingarstefna bankans að verða endurskoðuð frá grunni - rannsókn fari fram á innviðum bankans og hvernig farið hefur verið með fé þar innandyra. Sjálftaka á að vera liðin tíð og menn eiga fremur að horfa til kjara ljósmæðra um viðmið í bankastjóralaunum en til tungslins eins og gert hefur verið. Árangurstengingartalið til réttlætingar ofurlaunum hljómar nú nánast hlægilega þótt engum sé hlátur í hug.
Í öðru lagi þarf að setja fjármálastofnunum nýjan lagaramma þar sem greint verði á milli fjárfestingarsjóða annars vegar og viðskiptabanka hins vegar.
Í þriðja lagi, verður ríkisstjórnin að skuldbinda sig til að snúa af braut einkavæðingar. Almennt lítur fólk á það sem sjálfgefið að svo verði gert eftir að allir „burðarásarnir" sem áttu að eignast orkulindir Reykjaness og Hellsiheiðarinnar (og gerðu það að hluta til sbr. Geysir Green, les Fl-group og Glitnir í Hitaveitu Suðurnesja) hafa nú sýnt fram á veikleika markaðshyggjunnar.
Seðlabanki Evrópu hefur ákveðið að veita eitt þúsund milljörðum evra til stuðnings fjármálakerfinu vegna kreppunnar. Verkalýðshreyfingin í Evrópu hefur sent frá sér yfirlýsingu sem er að finna á heimasíðu BSRB þar sem sú krafa er reist að fjárveitingum úr opinberum sjóðum fylgi samfélagsleg ítök og áhrif.

Í yfirlýsingu frá verkalýðshreyfingunni á Hinu evrpópska efnahagssvæði, ETUC (European Trade Union Confederation), sem BSRB og ASÍ eiga aðild að, segir m.a.:

„Tölum enga tæpitungu. Þessi kreppa á upphaf í græðgi og ábyrgðarleysi fjármálamiðstöðva heimsins í Wall Street, London og víðar. Forstjórar leyfðu hömlulaust brask með fjárfestingar sem þeir skildu tæpast sjálfir. Braskarar hafa ýtt undir alvarlega hækkun á verði eldsneytis, matvæla og hráefna. Þeir sem hafa tapað eru margir, launamenn í iðnaði og ellilífeyrisþegar, fjölskyldur, fyrirvinnur og fyrirtæki sem leitað hafa að fjárfestingarfé sem og við öll, sem skattgreiðendur sem þurft hafa að hlaupa undir bagga með bönkunum. Kostnaður við björgunaragerðir í Bandaríkjunum er yfirgengilegur og skuldbindingar seðlabanka um allan heim verulegar. Það mun taka mörg ár að ná fjármunum til baka, takist það nokkru sinni og möguleikum okkar í framtíðinni til að fjármagna almannaþjónustu af mestu gæðum, hefur verið ógnað.

Það er af þessum orsökum sem að nú hlýtur að vera komið að vatnaskilum. Aldrei aftur má það gerast að ábyrgðarleysi banka, vogunarsjóða og annarra fjármálastofnana verði til þess að þjóðir rambi á barmi gjaldþrots. Aldrei aftur má það gerast að skattfé almennings sé notað til að bjarga stofnunum sem halda áfram að borga ofurlaun og bónusa til æðstu stjórnenda sinna. Aldrei aftur má verð hlutabréfa, með beinni tengingu við laun forstjóranna, vera eina markmið fyrirtækjanna. Við höfum ekki efni á að endurtaka þetta grófa ábyrgðarleysi, græðgi og trassaskap.

ETUC, ásamt Alþjóðasambandi verkalýðsfélaga ITUC og Sambandi starfsmanna fjármálastofnana í Evrópu, Uni-Europe, vinnur nú að því hvernig verkalýðsfélög geta brugðist við þessari kreppu..."

Síðan er tíundað það sem gera þarf. Sjá hér:  http://www.bsrb.is/news.asp?id=682&news_ID=1394&type=one