VERNDARAR LÍTILMAGNANS
02.08.2008
Tveir hópar fólks ganga nú um þjóðfélagið með hauspoka. Annars vegar þeir sem allir vita að hafa ofurtekjur en birtast síðan á skattskránum hjá Frjálsri verslun og Mannlífi með „vinnukonuútsvar". Síðan er það gripdeildarfólkið. Forstjórar í fjármálalífi sem skammta sér tvær milljónir á dag og allir þeir sem mjólka almenning með milljónir á milljónir ofan. Og er ég þá ekki einu sinni byrjaður að tala um þá sem hafa dundað sér við að stela Íslandi á undanförnum árum, m.a. nýtt sér pólitísk tengsl í því skyni, samböndin við einkavinina á þingi og í sveitarstjórnum sem hafa einkavætt almannaeignir og fært þeim þær á silfruðu fati.
Þessu fólki finnst óþægilegt að skattskrárnar skuli opnar fjölmiðlum og þar með almenningi. En á hvítum hestum hafa bjargvættirnir birst, ungir Sjálfstæðismenn í SUS. Þeir eiga sér þá hugsjón að vernda hinn smáa. Undir það skal ég taka að þarna hefur SUS fundið smátt fólk.
En þó finnst mér að ungir Sjálfstæðismenn ættu að finna sér aðra tegund að verja en þennan lítilmagna, skattsvikarann og stórþjófinn.