VG ÁLYKTAR - ÁSTA RANGFÆRIR
Í ályktun sem þingflokkur VG hefur sent frá sér er að finna alvarleg varnaðarorð í garð Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, heilbrigðisráðherra, sem hrakið hefur æðstu stjórnendur Landspítalans úr starfi skýringarlaust: „Haldi ráðherra uppteknum hætti er engin spurning hvort hlýtur að víkja, ráðherrann eða þingræðið og heilbrigðiskerfið."
Í útvarpsþættinum Í vikulokin spurði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, Ástu Möller, formann Heilbrigðisnefndar Alþingis, hvort nefndinni hefði verið kunnugt um að víkja ætti Magnúsi Péturssyni, forstjóra Landspítalans úr starfi og hvort það hefði verið rætt í ríkisstjórn. Athygli vakti að Ásta Möller, formaður Heilbrigðisnefndar kvaðst ekki getað svarað þessari spurningu!!!
Deginum ljósara er að brottvikning Magnúsar er af pólitískum toga, því allir ljúka lofsorði á hann sem óvenju hæfan embættismann. „Glæpur" hans er að neita að gerast viljalaust verkfæri einkavæðingarráðherrans. Að baki pólitískum ákvörðunum á að vera pólitísk ábyrgð. Þá ábyrgð neitar Guðlaugur Þór, heilbrigðisráðherra, að axla. Í vikunni neitaði hann að taka við mig umræðu utan dagskrár um útboð á heilli spítaladeild á Landakoti en beiðni þar að lútandi hefur legið fyrir síðan 27. febrúar. Útboðsfresturinn rann út 13. mars og hafði ég fengið samþykki forseta Alþingis fyrir umræðunni og að hún færi fram fyrir páska-hlé. Þessu neitaði heilbrigðisráðherra hins vegar enda þótt hann væri til staðar í þinginu að mæla fyrir öðrum málum, þar á meðal að svara spurnigum frá flokkssystur sinni, Ástu Möller, um ágæti stefnu ríkisstjórnarinnar. Í fyrrnefndum útvarpsþætti hélt Ásta Möller því fram að ég hefði ekki lagt áherslu á að fá þessa umræðu. Það er rangt þótt ég hefði vissulega áður verið búin að forgangsraða annarri umræðu, sem einnig laut að heilbrigðismálum, þ.e. manneklu á dvalarheimilum aldraðra. Þeirri umræðu var beint til fjármálaráðherra sem ekki gat tekið hana vegna fjarveru frá þinginu. Ásta Möller ætti að kynna sér málin betur áður en hún fer fram á opinberum vettvangi með fullyrðingar sínar um samskipti mín við stjórn þingsins enda eru þær úr lausu lofti gripnar.
Þetta voru hins vegar ekki einu rangfærslur, þeirrar ágætu konu, Ástu Möller í þessum þætti. Eina ferðina enn fer hún með staðlausa stafi um hjúkrunarheimilið Sóltún, sem hún segir standa öðrum sambærilegum stofnunum framar. Hún neitar hins vegar að horfast í augu við hvers vegna skattgreiðendur borgi MEIRA til þessar stofnunar en annarra. Samkvæmt úttekt Ríkisendurskoðunar er það vegna þess að eigendur Sóltúns, sem er hlutafélag, borga hluthöfunum arð. Sjálfstæðisflokkurinn tók þá pólitísku ákvörðun fyrir hönd okkar skattgreiðenda að einkavæða á okkar kostnað. Þessari staðreynd horfir Ásta Möller markvisst framhjá og afvegaleiðir þannig þá sem á mál hennar hlýða. Þennan herkostnað einkavæðingarinnar verður að ræða. Þetta er ástæðan fyrir því að bisnissmenn fagna einkavæðingunni. Enda til að þjóna hagsmunum þeirra.
Eftirfarandi er ályktun þingflokks VG frá í dag:
HEILBRIGÐISKERFIÐ Í UPPLAUSN - STJÓRNENDUR HRAKTIR ÚR STARFI - HEILBRIGÐISRÁHERRA NEITAR UMRÆÐU Á ALÞINGI - VG krefst þess að RÍKISSTJÓRNIN AXLI ÁBYRGÐ
"Þingflokkur VG lýsir þungum áhyggjum af ástandinu í heilbrigðiskerfinu og því upplausnarástandi sem þar er að skapast vegna framgöngu heilbrigðisráðherra í skjóli Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Mikilvægustu heilbrigðisstofnunum landsmanna er haldið í fjárhagslegri spennitreyju, vinnuálag fer vaxandi á þegar undirmönnuðum deildum, vöktum er breytt í óþökk starfsfólks og nú er hafin handahófskennd einkavæðing einstakra þátta heilbrigðisstarfseminnar eða heilla deilda. Afleiðingar alls þessa birtast nú m.a. í hópuppsögnum sem að óbreyttu munu lama ómissandi kjarnastarfsemi í heilbrigðisþjónustunni. Að lokum gefast stjórnendur upp fullsaddir af skeytingarleysi heilbrigðisráðherra og hrokafullri framkomu. Alvarlegra er þegar þeir eru beinlínis hraktir úr starfi eins og nú hefur gerst með æðstu stjórnendur Landspítalans. Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs mun ganga eftir því að upplýst verðu um það mál.
Á Alþingi brýtur heilbrigðisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, í blað og hreinlega neitar að standa fyrir máli sínu gagnvart því hinu sama þjóðþingi og hann sækir umboð sitt sem ráðherra til. Með því er brotin stjórnskipuleg grundvallarregla í þingræðisríki sem aldrei má láta líðast. Haldi ráðherra uppteknum hætti er engin spurning hvort hlýtur að víkja, ráðherrann eða þingræðið og heilbrigðiskerfið. Vinstrihreyfingin - grænt framboð mun ekki láta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar komast þegjandi og hljóðalaust upp með að vinna óbætanleg skemmdarverk á heilbrigðiskerfinu og flæma þaðan burtu í stórum stíl mestu verðmæti þess, starfsfólkið. Heilbrigðiskerfið og mannauður þess er margfalt mikilvægara en einn hrokafullur ráðherra, það er dýrmætara en heil ríkisstjórn"