Fara í efni

VG, HÁEFFUN OG OFURLAUN

Jæja Ögmundur.
Það eru allir svo frábærir í VG. Hvað finnst þér þá um hana Svanhildi þína Kaaber, sem samþykkti ofurlaun útvarpsstjóra? Verða kjarakröfur BSRB í samræmi við þetta? Eigum við ekki bara öll að fá 100% hækkun?
Bjarni Kristinsson

Frá afstöðu Svanhildar Kaaber, sem sæti á í stjórn RÚV ohf., til launa Páls Magnússonar útvarpsstjóra,  hefur  verið greint opinberlega og vísa ég þar m.a. til fréttar í DV í síðustu viku. Þar kom fram að tillagan um launahækkun Páli til handa kom frá meirihlutanum í stjórn RÚV ohf og var ekki með samþykki Svanhildar sem gagnrýndi þessi háu laun og hefur auk þess óskað eftir úttekt á launum starfsmanna RÚV ohf, eða svo vitnað sé í Svanhildi: "Það sem máli skiptir er að horft verði til kjaraþróunar innan stofnunarinnar heildstætt, enda bað ég á síðasta stjórnarfundi í RÚV um yfirlit yfir laun og kjör starfsmanna. Að því marki sem ég fæ um það ráðið mun ég ekki láta mitt eftir liggja að stuðla að réttlæti hvað kjaramál varðar innan RÚV."
Mér heyrist þú vilja gera lítið úr Svanhildi Kaaber og hennar afstöðu. Það mun ég aldrei gera enda hef ég vitað að hún er einhver heilsteyptasta manneskja sem til er hvað varðar réttlæti í kjaramálum. Það hef ég þekkt allar götur frá því ég starfaði með henni er hún var formaður Kennarasambands Íslands.
Hvað laun útvarpsstjóra áhrærir, þá var þetta nokkuð sem ég ásamt ýmsum öðrum hef þúsund sinnum bent á í aðdraganda hlutafélagavæðingar. Við sögðum : Forstjórarnir eru nær alltaf hlynntir hlutafélagavæðingu - því ALLTAF hækka þar með þeirra eigin laun! Það gerðist og í RÚV eins og alþjóð nú veit en að ætla að kenna Svanhildi Kaaber um að svo hafi verið gert er eins ósanngjarnt og vera má. Hún réði engu um þetta mál. Þvert á móti er hún einn allra besti liðsmaður sem til er í baráttunni fyrir réttlæti í kjaramálum.
Það liggur hins vegar við að það hlægi mig þegar þeir sem lágu lágt í baráttunni gegn háeffun RÚV og annarra stofnana koma fram og níða þá niður sem þó börðust gegn þessu fyrirkomulagi sem vitað var að yrði ranglætinu skjól.
Kv .
Ögmundur Jónasson