Fara í efni

VG OG HÖFÐUBORGARSVÆÐIÐ – TILLÖGUR UM UPPRÖÐUN LÍTA SENN DAGSINS LJÓS

Vinstrihreyfingin grænt framboð mun nú fyrir áramótin skýra frá tillögum kjörnefndar til uppstillingar á lista flokksins í komandi alþingiskosningum. Efnt var til forvals í byrjun desember og á grundvelli þess er síðan raðað upp á lista á kjördæmunum þremur á höfuðborgarsvæðinu: Reykjavík suður, Reykjavík norður og í Suðvestur kjördæmi, Kraganum sem svo er oft nefndur.

Ég er í hópi þeirra sem telja núverandi kjördæmaskiptingu úrelta og að heppilegra væri að líta á landið allt sem eitt kjördæmi. Flokkunum væri þannig gert að hugsa á landsvísu en ekki staðbundið. Með því móti yrði stjórnmálamönnum innrætt sú hugsun að allir eigi að bera ábyrgð á öllum hvar í landinu sem þeir búa. Þetta er reyndar hugsun sem er einkennandi fyrir þingmenn VG.
Sú kjördæmaskipan sem var við lýði fram til 2003 hafði vissulega ýmsa kosti en með þeim breytingum sem þá urðu stækkuðu kjördæmin umtalsvert þannig að kostir þess að þingmenn sinntu tilteknum landshlutum urðu ekki eins augljósir og áður. Tengsl þingmanns Vestfjarða við Vestfirðinga hlutu þannig, svo dæmi sé tekið, að breytast eftir að Vestfjörðum var steypt í sama kjördæmi og öllu Vesturlandi og Norð- Vesturlandi.

Breytt kjördæmaskipan kallar á nýja hugsun og vísar það skref sem Vinstri græn á höfuðborgarsvæðinu hafa stigið með því að líta á höfuðborgarsvæðið heildstætt inn í nýja framtíð. Vesturbær Reykjavíkur og Árbær eru í sama kjördæmi. Hver er munur á milli þessara hverfa og síðan Kópavogs og Hafnarfjarðar, Grafarvogs, Mosfellsbæjar eða Seltjarnarness? Munurinn er enginn enda munu frambjóðendur VG til alþingiskosninga leggja áherslu á að þeir eru í reynd allir á sama bátnum.