Fara í efni

VG UM ALLA BORG


Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum hefur VG efnt til íbúafunda í Reykjavík um ýmis málefni undir yfirskriftinni VG um alla borg. Í kvöld klukkan 20 verður haldinn fundur í Gerðubergi í Breiðholti og er fundarefnið, Bær í borg - skiptir hverfalýðræði máli? Ég verð annar tveggja frummælenda á fundinum. Hinn frummælandinn er Svandís Svavarsdóttir, oddviti VG í Reykjavík. Svandís hefur öðlast mikla reynsla í borgarpólitíkinni og kann án efa að svara spurningunni betur en ég.
Ekki má þó gleyma því að við erum ekkert síður að beina spurningunni til fundarmanna og viljum heyra þeirra sjónarmið. Einu get ég þó svarað strax: Lýðræði á að skipta máli og það á að taka til málefna nær og fjær. Fundarefnið er m.a. sett á dagskrá til að efna til umræðu um hvernig hægt sé að efla lýðræðið í einstökum hverfum á Stór-Reykjavíkursvæðinu. Í þessu samhengi vakna óneitanlega margar spurningar. Til hvaða málefna á hverfalýðræði að taka? Getur hverfalýðræði þróast út í að fámennir en kröftugir hópa taki ráðin þvert á almennan vilja? Á að setja hverfafélögum einhverjar skorður? Á þvert á móti að efla félögin og gefa þeim fleiri verkefni og örva þannig áhuga á starfi þeirra?
Allir eru velkomnir á þennan spjallfund. Því fleiri sem koma og leggja orð í belg, þeim mun betra.