Fara í efni

VIÐ BÚUM EKKI Í SKÁLDSÖGU

Eitt augnablik hvarflaði að mér að Staksteinahöfundur dagsins á Mogga gæti verið stjórnmálamaður. Með reynslu. Og að hann væri að gefa lýsingu á sjálfum sér, samkvæmt formúlunni, margur heldur mig sig.

Auðvitað er af nógu að taka þegar leynimakk og baksamningar eru annars vegar, til dæmis úr heimi bankamálanna sem þessa dagana eru í brennidepli; hvernig bankarnir voru fengnir félögum og vinum í hendur fyrir slikk. Sem væri nú sök sér hefðu þeir ekki síðan komið okkur út í það fen sem við erum nú stödd í.

Látum þetta liggja á milli hluta.

Nema hvað baksamningar eru á dagskrá í Staksteinum í dag. Nú er það við mig sem ríkisstjórnin á að hafa sammælst um að láta líta svo út með "baksamningi" að afsögn mín hafi styrkt stöðu hennar gagnvart Bretum og Hollendingum. Síðan hafi átt að koma til hræðsluáróður um að samstarf Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins væri í burðarliðnum. Allt þetta sé til þess fallið að réttlæta samþykkt Icesave samninganna.

Ein leið til að ganga úr skugga um sannleiksgildi þessa gæti verið að rýna í drög að Icesave-samningunum eins og þau lágu fyrir áður en afsögn mín kom til skjalanna, fara yfir fjölmiðlaumræðu í Bretlandi og Hollandi á þessu tímabili leggja síðan mat á fundi okkar fólks með ráðamönnum þessara þjóða. þannig mætti komast að niðurstöðu um hvað væri rétt og hvað rangt í þessu efni.

Um  sannleiksgildi pólitískra þreifinga á milli S og S þekki ég ekki. Kannski best að spyrja áhugafólk um stóriðju og einkavæðingu í báðum flokkum. Eftir því sem ég kemst næst er hins vegar ekki fótur fyrir þessari kenningu. Eftir því sem ég fæ best séð eru ríkisstjórnarflokkarnir staðráðnir í því að halda samstarfi sínu áfram þrátt fyrir þá óskhyggju sem kann að vera á sveimi innan Sjálfstæðisflokks og hugsanlega í huga einhverra samfylkingarmanna.

En menn mega ekki láta óskhyggju og skáldlegan innblástur villa sér sýn. Við búum ekki í skáldsögu. Stundum finnst manni það þó - meira að segja í ansi reifarakenndum veruleika. Út úr honum erum við að reyna að komast. En eitt er víst að það gerum við ekki með því að skálda okkur út úr honum.