Fara í efni

VIÐ ERUM AÐ BREGÐAST


Þessi fyrirsögn er staðhæfing. Ekki spurning. Skúffufyrirtæki, skrásett í Svíþjóð,  Magma Energy, er að eignast eitt mikilvægasta orkufyrirtæki landsins - Hitaveitu Suðurnesja. Einkavæðingin að ná fullu húsi þar á bæ.
Málið á sér aðdraganda til árasins 2007 þegar Sjálfstæðisflokkurinn krafðist þess að einkaðilar einir mættu kaupa hlut ríkisins sem þá var auglýstur til sölu (Nauðsynlegt fyrir kjósendur framtíðarinnar að kunna þessa sögu og hafa í huga örlög Rauðhettu í ævintýrinu sem étin var af úlfinum grimma vegna andvaraleysis hennar):  https://www.ogmundur.is/is/greinar/framsokn-og-sjalfstaedisflokkur-einkavaeda-enn
Síðan leið og beið. Orkuveita Reykjavíkur eignaðist hlut í HS. Seldi hann til Magma. Og Geysir Green, sem keypti í boði Sjálfstæðsflokksins á sínum tíma, er nú að selja sinn hlut til Magma.
Hér er verið að braska með auðlindir þjóðarinnar. Við því hefur oft verið varað. Sannast sagna hélt ég að Íslendingar hefðu lært sína lexíu. Nei. Svo er ekki. Samfélagið er bregðast sjálfu sér; ríkisstjórnin er að bregðast komandi kynslóðum í þessu máli. Við sem sitjum á Alþingi erum að bregðast sem löggjafi því við verjum ekki auðlindir þjóðarinnar gegn braski. Fjármálamenn eru líka að bregðast samfélagi sínu. Þeir ættu að sjá sóma sinn í því að hugsa á félagslega ábyrgan hátt; láta auðlindirnar í friði, ella verður ríkisstjórnin og sameinað Alþingi að bregðast við hart. Andvaraleysi í þessu máli er ekki valkostur.