Við erum tæki kjósenda
Tvær spurningar: 1. Má treysta því að heilbrigðiskerfið verði bætt verulega ef þið komist í ríkisstjórn? 2. Eru einhver mál sem þið ætlið að láta steyta á ef þið komist í stjórn?
mkv Hálfdan
Sæll Hálfdan.
1.Það má treysta því að heilbrigðiskerfið yrði bætt með aðkomu okkar að ríkisstjórn. Við erum eini flokkurinn sem ekki lofar skattalækkunum og niðurskurði, einfaldlega vegna þess að við ætlum okkur að ráðast í þetta verkefni og það kostar peninga. Á hinn bóginn hyggjumst við færa skattbyrðina til og freista þess að auka ráðstöfunartekjur láglauna og millitekjufólks. Atvinnurekstrinum viljum við búa sanngjörn og góð skilyrði þannig að þjóðin geti virkjað sem best þann sköpunarkraft sem býr með henni.
2. Í ríkisstjórn hefðum við aldrei heimilað Kárahnjúkavirkjun í þágu Alcoa, við hefðum aldrei heimilað að niðurskurðarhníf yrði beitt á lífskjör öryrkja og vísa ég þar einkum í svokallaðan Öryrkjadóm og aldrei hefðum við leyft að mynduð yrði hyldýpisgjá á milli ríkra og snauðra. Við hefðum aldrei gerst handbendi Bush-stjórnarinnar í árásinni á Írak. Við hefðum hins vegar viljað efla Ísland á alþjóðavettvangi, svo sem hjá Sameinuðu þjóðunum og við hefðum barist fyrir traustara velferðarkerfi og einmitt þetta munum við gera að forgangsverkefni á komandi kjörtímabili ef við verðum í ríkisstjórn. En við þurfum kröftugan stuðning, að öðrum kosti munum við ekki komast í þá stöðu að setja einhver skilyrði, einfaldlega vegna þess að við yrðum ekki í stjórn. Við erum tæki kjósenda á Alþingi og því öflugri sem þeir gera okkur þeim mun öflugri verðum við til verkanna.
Kveðja, Ögmundur