Fara í efni

VIÐ HEITUM ÞVÍ AÐ VINNA VEL!


Sannast sagna er ég mjög stoltur af samherjum mínum á framboðslista VG í Suðvesturkjördæmi. Á myndinni hér að ofan er talið frá vinstri Margrét Pétursdóttir, verkakona, en hún var áberandi í Búsáhaldabyltingunni,Ása Björk Ólafsdóttir, héraðsprestur í Kjalarnesprófastsdæmi, Ólafur Þór Gunnarsson, öldrunarlæknir og og bæjarfulltrúi VG í kópavogi, Andrés Magnússon, læknir og einn þeirra sem kvaddi sér hljóðs löngu fyrir hrun og varaði við því enda kvaddur á pall á Austurvelli í "Búsáhaldabyltingu", í Silfur Egils og víðar og víðar og nú kominn á flug í pólitík. Síðan er það  Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, framkvæmdastýra þingflokks VG og margfaldur Íslandsmeistari kvenna í skák. Guðfríður Lilja er oddviti listans. Sjálfur skipa ég annað sætið, og stend lengst til hægri þótt ég heiti lesendum að í pólitíkinni stefni ég ekki í þá átt.
Hvað skal segja í nú rétt áður en kjörstaðir opna annað en að biðja öll þau sem vilja veg Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs sem mestan í komandi kosningum að leggjast á eitt um að safna liði. Hvert atkvæði skiptir máli!!!

Myndin að ofan er tekin í blaði VG sem dreift var í Kraganum um helgina. Þar var að finna viðtöl og greinar og lýsti ég viðhorfum mínum í svörum við spurningum sem blaðið beindi til mín:

Af hverju ertu í stjórnmálum?
Eitt hefur leitt af öðru. Alla tíð hef ég haft áhuga  þjóðfélagsmálum. Á námsárum mínum fór sálin að loga af stjórnmálaáhuga. Hvar sem ég hef verið, í vegavinnu, á kennarastofu, í fréttamennsku eða öðrum störfum, hef ég alltaf látið félagsmál til mín taka. Ég var formaður Starfsmannafélags Sjónvarpsins nær allan starfstíma minn hjá þeirri stofnun en þaðan fór ég á fullt í verkalýðspólitíkina  fyrir BSRB. Síðan lá leiðin á Alþingi og er ég nú - alla vega um stundarsakir - kominn í Heilbrigðisráðuneytið. Það er komið undir kljósendum hve lengi ég verð þar. Eldsneytið á mína pólitísku sál hefur verið áhugi á því að skapa gott og vinsamlegt samfélag sem eftirsóknarvert er að verja lífinu í. Síðan er það áhugi á lýðræði. Þegar ég starfaði hjá Sjónvarpinu hengdum við upp plaköt þar sem á stóð: „ Fleiri eru menn en yfirmenn -  en stundum þarf að minna á það. Styrkjum Starfsmannafélagið!" Á þessum árum vildi ég aldrei að notað yrði hugtakið yfirmaður og undirmaður, fannst að verkalýðsbaráttan og pólitíkin ættu að útrýma þessum greinarmun og þar með þessum hugtökum. Ég er enn við sama heygarðshornið og vil að verkalýðsfélög og stjórnmálaflokkar setji alla jafnt til öndvegis. Ég er vinstri maður í anda Oscars Wilde en hann sagði einhverju sinni að sósílismi væri einstaklingshyggja fyrir alla.

Getum við treyst því að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn beri frekar fyrir brjósti hag almennings en fjármagnseigenda?
Nei, því getum við ekki treyst. Ég lít á Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem heimslögreglu kapítalismans og að hann skilgreini hlutverk sitt fyrst og fremst á þá lund að hann eigi að passa upp á fjármagnið. Það gerir hann líka af áfergju og ákafa. Það sýnir reynslan. Verkefnið er að jarðtengja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, koma lýðræðislegum böndum á hann. Þetta hef ég rætt á fundum og þingum innan alþjóðlegu verkalýðshreyfingarinnar á liðnum mánuðum. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er ekki hér með minni blessun - hann kom hingað á annarra vegum. Hér á landi þarf hann að mæta fólki sem kann að standa í fæturna. Í því samhengi leyfi ég mér að spyrja kjósendur hvorir séu líklegri til þess: Sjálfstæðisflokkurinn eða Vinstri græn. Svarið er augljóst: Fyrir þjóðarhag er nauðsynlegt að hafa við stjórnvölinn stjórnmálamenn sem frekar vilja passa upp á fólk en fjármagn.  

Verður bylting í heilbrigðismálunum?
Góðir hlutir gerast hægt í þessum mikilvæga málaflokki. Og þeir eiga að gerast í samstarfi og sátt við það fólk sem starfar innan heilbrigðisgeirans. Þetta hef ég lagt áherslu á þá 80 daga sem ég hef verið í heilbrigðisráðuneytinu. Ef við fáum stuðning kjósenda til áframhaldandi stjórnarsetu og ef svo fer að ég verði áfram í heilbrigðisráðuneytinu, þá mun ég beita mér fyrir ýmsum umbótum. Þetta er einmitt lóðið: Markvissar og vel útfærðar umbætur. Það eru engin heljarstökk á dagskrá. Hitt mega menn vita að í heilbrigðiskerfinu sem annars staðar verður ekki allt óbreytt. Nýja Ísland verður ekki nýtt án breytinga í umbótaátt.

Hvað um sjálfbærni, hvað getum við lagt áherslu á að framleiða sjálf?
Möguleikarnir eru óþrjótandi. Íslendingar hættu að sinna siglingum vegna þess að það gaf meira í aðra hönd að fjárfesta í braski innan lands og utan. Menn hættu einfaldlega að sinna verðmætaskapandi atvinnustarfsemi en lögðust þess í stað í peningabrask sem öllum er nú ljóst að byggði á sýndarveruleika. Ef við höldum okkur við heilbrigðisgeirann þá þarf eki að benda á annað en að við flytjum inn allt saltvatn og næringarvökva fyrir heilbrigðiskerfið - í þúsundatonnavís. Vatn! Til Íslansds! Allt var þetta áður framleitt hjá Lyfjaverslun ríkisins. Síðan er það allt einnota plastið á sjúkrahúsunum. Einhvern tíma hefði Reykjalundur rúllað þessu upp. Nei, nú er allt flutt inn því fjárfestingarvesírar töldu sig geta grætt betur á öðru. Þá er komið að framtíðinni. Við þurfum að venda okkar kvæði í kross og horfa í allt það sem við gætum framleitt hér á landi sem skapar störf og sparar gjaldeyri. Það skyldi þó aldrei vera að renna upp að nýju tími skipasmíða, innlendrar húsgagnaframleiðslu og áburðarframleiðslu, fyrir utan alla nýsköpunina sem sprotafyrirtæki hafa verið að þreifa fyrir sér með, oftar en ekki með frábærum árangri. Allt þetta þarf nú að glæða og örva sem aldrei fyrr!  

Hvernig sérðu fyrir þér að endurreisa megi Ísland?
Með samtakamættunum; að við gerum þetta saman. Aðeins þannig er það líka hægt. Við þurfum að taka eins lítil lán á ríkið og nokkur kostur er. Það er mál málanna. Helst ekki krónu frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og eins lítið af öðrum skuldbindingum og nokkur kostur er. Síðan þurfum við að taka til á þjóðarheimilinu. Lofta út. Við þurfum að sýna ráðdeild og réttlæti. Ef fólk finnur að svo er gert  - að þetta er leiðarljósið - þá eru allir með. Með þjóðinni býr sterkur lífsvilji. Íslendingar hafa áður lent í erfiðleikum og klárað sig af þeim. Það munum við líka gera núna. En verkstjórnin skiptir máli. Það skiptir máli hverjir verða í Stjórnarráðinu. Kjósendur velja sér áhöfn í stýriklefa þjóðarskútunnar  25. apríl. Hvort skyldi fólk vilja stjórnendur sem líta á sig sem yfirmenn sem síðan beita boðvaldi eða fólk sem lítur á alla sem jafningja og vilja virkja lýðræðið. Stjórnerndur sem vilja virða almannavilja. Það viljum við í VG gera. Við biðjum um stuðning til góðra verka.