VIÐ HVAÐ Á AÐ MIÐA AFNOTAGJÖLDIN?
Ég vil þakka Helga Guðmundssyni fyrir hugleiðingar hans um afnotagjald ríkisútvarpsins og framtíðarskipan þar á. Báðir viljum við öflugt ríkisútvarp og er það vel. Helgi gefur því á hinn bóginn undir fótinn að afsala öllum auglýsingum og þar með tekjum af þeim til einkastöðva. Slíku er ég alfarið á móti. Þá telur hann ráð að tengja útvarpsgjöldin við gjöld af fasteignum og veltir upp ýmsum möguleikum í því sambandi. Ekki er ég fráhverfur því að afnotagjaldið taki mið af rúmmetrafjölda húsnæðis, en það er einmitt einn valkosturinn sem Helgi sér í stöðunni. En ef rúmmetra-leiðin yrði farin tel ég eðlilegt að rúmmetrafjöldinn taki einvörðungu til þess herbergis sem viðtækið er staðsett í. Þá tel ég það einnig ákveðið réttlætismál að við gjaldlagningu verði tekið mið af skjástærð viðtækis og yrði þá formúlan (gjaldstuðullinn) fyrir afnotagjöldunum einhvers konar margfeldi af rúmmetrafjölda sjónvarpsstofunnar annars vegar og skjástærðinni í tommum talið hins vegar.
Ekki veit ég hvort þessi formúla reynist skoðunar virði, enda skiptir það kannski ekki alveg öllu máli í mínum huga. Aðalatriðið er að útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna, RÚV, verði tryggðir traustir tekjustofnar sem ráðandi öfl í samfélaginu geta ekki hringlað auðveldlega með í takt við sín ólundarköst og skapsveiflur þegar þeim finnst að fjölmiðlarnir makki ekki rétt.
Mbk,
Þjóðólfur
Heill og sæll Þjóðólfur og þakka þér bréfið. Ég hallast nú frekar að fasteignatengingu Helga en margfeldisstuðli þínum þótt heillandi sé og vissulega þess virði út af fyrir sig að innleiða þótt ekki væri nema til að láta reyna á færni bírókrata þjóðarinnar við útfærslu og framkvæmd. En þér er ég hins vegar sammála að því leyti að ég er ekki reiðubúinn að ljá því máls að leggja af útvarps- og sjónvarpsauglýsingar. Annars sátum við Helgi Guðmundsson saman í útvarpslaganefnd á árinu 1989, sem þáverandi menntamálaráðherra Svavar Gestsson skipaði, ásamt nokkrum valinkunnum einstaklingum. Að öllum ólöstuðum reyndist Helgi okkur snjallastur í þessu starfi og hvet ég menn til að lesa grein hans HÉR á síðunni. Ég er hins vegar búinn að grafa upp álitsgerð okkar og mun birta nokkra hluta úr henni innan tíðar.
Kveðja,
Ögmundur