VIÐ KVEIKJUM ELD – NATÓ KOLEFNISJAFNI
Senn líður að því að við sprengjum út gamla árið. Ég sendi nokkra flugelda í loftið. Kaupi þá hjá Landsbjörg svo gagn og gaman fari saman.
Svo loga brennur, kátt þær brenni.
En hvað með kolefnisjöfnun?
Þar er auðfundið ráð.
Ríkisstjórnin segist litlu geta ráðið í NATÓ en þessu getur hún þó ráðið ef hún á annað borð vill: Hún getur bannað heræfingar á Íslandi og byrjað á “öryggislflugi” frá Keflavík, “loftrýmiseftirlit” minnir mig að það sé stundum kallað og að tilgangurinn sé að fylgjast með óvinum Íslands. Sennilega Pútin, að sjálfsögðu ekki Trump.
Í tengslum við síðustu fluglotuna vorum við frædd á því að NATÓ-Ísland færi alltaf vopnað í loftið frá Keflavík. Þessu er sjaldan flíkað enda Ísland sagt vera herlaust og vopnlaust land eins og við þekkjum. Sendum bara annarra þjóða ungmenni í stríð til að verja auðlindarán í fjarlægum löndum.
Sennilega myndi duga að kyrrsetja eina vopnaða NATÓ vél í einn dag til að vega upp á móti flugeldasprengingum Íslendinga á gamlárskvöld! Og öllum brennunum líka.
Kannski dugar hálfs dags pása í sprengjufluginu.
Skyldi þetta hafa verið mælt?
Hvernig væri að setja þetta á dagskrá í þjóðar-öryggismála-ráðinu, svona rétt til að tengja við veruleikann. Hann er nefnilega þarna, þessi veruleiki. Hernaðarumsvif menga en um það vilja fæstir ræða.