VIÐ VISSUM EKKERT
Eftir að Davíð Oddsson upplýsti í gær um viðvaranir Seðlabankans til ríkisstjórnarinnar í febrúar sl. um yfirvofandi hrun bankakerfisins hafa tveir ráðherrar stigið á stokk og segjast ekkert kannast við málið. Þeir hafi ekkert heyrt af þessari svörtu skýrslu sem seðlabankamenn komu með færandi hendi inn í Stjórnarráðið. Annar þessara sakleysingja er sjálfur bankamálaráðherrann , Björgvin G. Sigurðsson, hinn Össur Skarphéðinsson iðnaðarráðherra. Rík ástæða er til að efast um sannsögli þeirra félaga eða hvernig gat háskaleg staða bankanna farið fram hjá þeim? Ef þeir á hinn bóginn ætlast til að nokkur taki mark á þessari yfirlýstu vanþekkingu eiga þeir umsvifalaust að segja af sér vegna vanrækslu í starfi.
Í beinu framhaldi af þessu og rétt til gamans í öllu svínaríinu sem þjóðinni er nú boðið upp á: Össur Skarphéðinsson hefur margoft sýnt að hann er mikill spaugari en aldrei hef ég séð örla fyrir húmor hjá bankamálaráðherranum. En kannski leynir hann á sér eftir allt saman því að svo seint sem 17. september, hálfum mánuði fyrir bankahrunið birtist svohljóðandi frétt í 24 Stundum um nefndarskipan til að kanna „fjármálalæsi" Íslendinga:
„Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra hefur skipað nefnd til að kanna stöðu fjármálalæsis á Íslandi. Nefndinni er ætlað að meta þörf á aðgerðum til að bæta þekkingu almennings á vörum og þjónustu fjármálafyrirtækja og gera tillögur um aðgerðir. Nefndinni er ætlað að skila viðskiptaráðherra skýrslu fyrir árslok.
Rannsóknir á vegum OECD sýna að fjármálalæsi er almennt slæmt á meðal neytenda en þó sérstaklega hjá þeim sem eru með litla menntun og lágar tekjur. Enn fremur sýna rannsóknir að neytendur telji sig vita meira um fjármál en þeir í raun gera."
Sannarlega þarft framtak og kannski að bankamálaráðherrann, brátt fyrrverandi, skelli sér á námskeið í þessum fræðum þótt hann falli ekki undir helstu viðmiðin í fjármálaólæsi - litla menntun og lágar tekjur. Það er allt í lagi að brjóta odd af oflæti sínu stöku sinnum og njóta nærveru lágstéttanna sem að sögn fróðra manna kunna ekki fótum sínum forráð þegar stigið er inn á glansandi marmara fjármálalífsins.
Þjóðólfur