VIÐ VITUM HVAR VIÐ HÖFUM VG
Birtist í Fjarðarpóstinum 10.05.07.
Þetta sagði ágæt kona við mig á vinnustaðafundi nú í kosningabaráttunni. "Við vitum hvar við höfum ykkur og ekki hefði ég viljað vera án ykkar á Alþingi undanfarin ár." Þetta yljaði mér um hjartarætur. Það er hins vegar alveg þess virði að hugsa til umræðunnar um Kárahnjúka, alla einkavinavæðinguna, innrásina í Írak, velferðarmálin og atvinnumálin. Þingmenn VG voru aðeins 5 talsins og urðu allt of oft að láta í minni pokann. Ef við hefðum verið helmingi fleiri, að ekki sé minnst á fjórum sinnum fleiri, eða 20 eins og fjöldi þingmanna Samfylkingarinnar var, hefði róðurinn verið okkur léttari.
Ef þjóðin vill koma í veg fyrir að hótanir Sjálfstæðisflokksins um að einkavæða heilbrigðisþjónustuna og selja orkufyrirtækin nái fram að ganga, þá verður að styrkja Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Að öllum ólöstuðum þá er það staðreynd að viðspyrnan er langöflugust frá VG gegn áformum af þessu tagi. Vörnin fyrir hönd umhverfisins og velferðarkerfisins er mest og kröftugust frá okkur.
Ég geng líka svo langt að fullyrða að án þátttöku VG mun engin ríkisstjórn rísa undir sæmdarheitinu velferðarstjórn. Við brennum í skinninu að fá tækifæri til að rétta kúrsinn á þjóðarskútunni og stýra henni inn á farsælli siglingaleiðir. Við búum við þau skilyrði á Íslandi að hér eiga allir að geta haft það gott. Það getur enginn véfengt að misrétti hefur verið að aukast í landinu á undanförnum árum. Það er vegna stjórnvaldsákvarðana. Þeim ákvörðunum þarf nú að breyta. Ég hef miklar væntingar til nýrra þingmannsefna VG. Hér í Suðvesturkjördæmi er eitt öflugasta þingmannsefni sem nú er í kjöri á landinu öllu. Það er Guðfríður Lilja Grétarsdóttir sem skipar annað sæti á lista VG.
Sá sem veitir henni stuðning og stuðlar að því að hún nái kjöri til Alþingis kastar ekki atkvæði sínu á glæ.
í Suðvestur-kjördæmi