VIÐBRÖGÐ VIÐ BLAÐASKRIFUM
Sæll Ögmundur.
Ég las grein þína Virkisturn í norðri hér á síðunni eftir að hafa lesið gagnrýni á hana í Fréttablaðinu. Mér þykir mjög merkilegt hvað menn bregðast hart við í ljósi þess hve hófsöm grein þín er. Ég er einn einn þeirra sem mótmælti friðsamlega á Austurvelli vikum saman eftir hrunið í þeim tilgangi að reyna að koma ríkissjórn Geirs Haarde frá. Í sama tilgangi skrifaði ég þrjár greinar í Mbl. Fyrst kom "Frjálshyggjuflónin og fúafenið", þá "Sagnfræðingurinn Ingibjörg Sólrún" og loks "Fjórða ríkið, ESB".
Það var mjög merkileg lífsreynsla að upplifa það að umrædd ríkisstjórn lét friðsamleg mótmæli og málefnalegar blaðagreinar sem vind um eyrun þjóta og fór ekki frá fyrr en farið var að beita ofbeldi. Ég benti á að svo myndi fara í tveim fyrstu greinum mínum. Það gekk eftir. Í þriðju greininni segi ég meðal annars: "Í raun eru stórþjóðirnar í Evrópu búnar að svæla undir sig margar af smærri þjóðum Evrópu og búa til eins konar „fjórða ríkið". Fjórða ríkið þarf sitt „lebensraum" rétt eins og þriðja ríkið þurfti og það beitir sínum aðferðum til þess að sölsa undir sig auðlindir á landi og í sjó þótt hefðbundnum hernaði sé ekki beitt. Nei, nú beita menn lögmálum markaðshyggjunnar til landvinninga. Þeir ásælast fiskimiðin okkar, orkuauðlindirnar og önnur gæði. Vel má vera að við séum svo illa stödd að okkur þyki affarasælast að láta undan á þeirri forsendu að við verðum hvort sem er kúguð til þess með viðskiptahindrunum og öðru slíku ofbeldi. Ég mæli gegn slíkri uppgjöf."
Auðvitað fékk ég engin viðbrögð enda er ekki sama hvort skrifin koma frá Jóni eða séra Jóni. Og kannski hefur fólki ekki þótt greinin svaraverð af því ég minnist á fjórða ríkið og lífsrýmið. Það er samt svo merkilegt að þegar rætt er við embættismenn ESB um umsókn Íslands þá álpa þeir sumir út úr sér hversu mikla hagsmuni ESB hefur af inngöngu Íslands og eina orðið sem vantar í þann málflutning er einmitt lebensraum. En efnislega er það það sem menn eru að segja.
Ég endaði grein mína með eftirfarandi: "Skólabróðir minn, Einar Már Guðmundsson, rithöfundur, orðaði hugsun sína þannig. „Aumingja Jón Sigurðsson í nepjunni niður á Austurvelli og Jónas Hallgrímsson svo laglegur í frakkanum...." Er nokkuð kominn tími til að losa styttur þessara ágætu manna af stalli sínum? Og Jónas Hallgrímsson orti. Ó, þér unglinga fjöld og Íslands fullorðnu synir! Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!" Ágæti Ögmundur. Ég vona að þú látir ekki deigan síga í baráttu þinni gegn því að við Íslendingar verðum múraðir inni í ESB. Sjálfum finnst mér það mjög merkilegt hvað sjálfstæðisþrá Íslendinga hefur dvínað á einum mannsaldri. Þó er enn meirihluti gegn aðild en spurning hvaða áhrif tilvonandi áróður með aðild mun hafa.
Kveðja,
Björn Guðmundsson