VÍÐIDALSTUNGUBÓK
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 11.08.13.
Einhverju sinni kom ég í Reykholt með norrænan hóp að vitja fornrar söguslóðar. Séra Geir Waage tók á móti hópnum og talaði hann til okkar í nokkurn tíma. Aðkomumenn hlustuðu dolfallnir. Það var að vísu ekki svo að spurt væri hvort þetta væri sonur Snorra, sem þarna mæltist svo vel, en hitt veit ég að hinum norrænu aðkomumönnum þóttu þeir vera komnir harla nærri Söguöldinni við að hlýða á séra Geir virkja menningararfinn. Einhver hafði á orði að hann væri á borð við Geysi og Gullfoss.
Á undanförnum árum hefur víða tekist vel til við að koma menningararfleifðinni á framfæri. Ég nefni sem dæmi Hávamálin á heimstungunum í snjallri framsetningu og síðan fjölmörg söfn víða um land sem opna okkur og heimsækjendum okkar sýn inn í menningu þjóðarinnar. Hið frábæra Vesturfarasafn á Hofsósi er dæmi um menningarlegt orkubú.
Og nú er komin tillaga um nýtt safn, sem hlýtur að vera íhugunar virði: Safn um gerð fornritanna með þungamiðju í okkar merkasta handriti, Flateyjarbók.
Þessi hugmynd var sett fram í grein sem biritst í Morgunblaðinu nýlega eftir þau Karl Guðmund Friðriksson og Sigríði P. Friðriksdóttur. Greinarhöfundar vilja að bókin verði kennd við Víðidalstungu í Húnavatnssýslu og nefnd Víðidalstungubók enda rituð undir handarjaðri Jóns Hákonarsonar, bónda í Víðidalstungu og síðan lengi varðveitt þar. Í Flatey hafi bókin hins vegar stoppað stutt við áður en hún var flutt til Kaupmannahafnar.
Ekki er nóg með að þau Karl Guðmundur og Sigríður telji rétt að kenna Flateyjarbók við Víðidalstungu í stað Flateyjar. Þau leggja til að fyrrnefnt safn verði reist á tungunni á milli Víðidalsár og Fitjár og að þar verði sögu Víðidalstungu/Flateyjar-bókar gerð skil en sérstök áhersla yrði lögð á að sýna verkun skinna og bókband.
Um þennan verklega þátt handritsgerðar fjallar Sigurður Nordal m.a. í formálsorðum sínum að útgáfu Flateyjarbókar árið 1944. Hann segir að í bókina hafi farið 113 kálfskinn og hafi það verið vandasamt og seinlegt „að verka skinnin með nauðsynlegri varúð, skera þau til og fága, svo að þau yrðu hæf til bókfells." Allt hafi þetta verið „íslensk heimilisvinna, og úr innlendum efnum var líka blekið og jurtalitir til skreytingar." Þá hafi „verið tímafrekt að lýsa bókina, þ.e. prýða hana með hinum mislitu upphafsstöfum, hugsa tilbreytnina í gerð þeirra og draga þá."
Safnið stendur lifandi fyrir hugskotssjónum!
Mér þykir þettta vera góð hugmynd. Ég skal játa að ekki er ég laus við hlutdrægni í afstöðu til staðarvalsins því fyrir rúmlega hálfri öld var ég sumarstrákur í Víðudalstungu og á þaðan góðar minningar. En hvað sem líður hlutdrægni sveitadrengs úr Tungu þá tala röksemdirnar sínu máli og myndin sem Sigurður Nordal dregur upp í fyrrgreindum formála sínum, bæði af bókagerðinni og sögu handritsins, gerir það að verkum að ég get varla beðið að komast í safnið í Víðidalnum til að fræðast um Víðidalstungubók í því héraði sem hún varð til fyrir rúmum sex hundruð árum.