VIÐSKIPTARÁÐ REIKNI TJÓNIÐ SEM ÞAÐ HEFUR VALDIÐ ÞJÓÐINNI
Viðskiptaráð hættir aldrei að koma á óvart. Nú reiknar það út hvað gjaldeyrishöftin kosti íslenskt samfélag. En hvers vegna skyldu vera gjaldeyrishöft? Þau má leiða til hruns bankanna sem hér dönsuðu sinn Hrunadans í aðdraganda efnahagshrunsins. Alltaf undir leiðsögn Viðskiptaráðs sem aldrei skorti orð til að réttlæta ruglið sama hversu mikið það varð.
Ísland varð nærri gert gjaldþrota af bröskurum, innlendum og erlendum. Við hrunið lokuðust hundruð milljarða af braskpeningum inni í landinu. Ef ekki væri vegna gjaldeyrishaftanna hefði þetta fjármagn leitað út.
En fyrir þessu eigum við hreinlega ekki nægan gjaldeyri í landinu. Allan gjaldeyrisforðann, sem þó er til, myndu spekúlantarnir leysa til sín í einu vetfangi. Ekkert yrði aflögu fyrir hinn almenna mann og verðgildi krónunnar félli og þá jafnframt kaupgeta okkar.
Hvernig væri nú að Viðskiptaráð reyndi að reikna út allt tjónið sem það hefur valdið á íslensku samfélagi.
Haffi