Fara í efni

VIÐSKIPTARÁÐ VIÐ MJALTIR Í BOÐI FORMANNS SJÁLFSTÆÐISFLOKKSINS

Mjalta-menni kapítal
Mjalta-menni kapítal

Nú er ég farinn að kannast við mína menn, hina pólitísku handlangara Viðskiptaráðs.  Fjármálaráðherrann er greinilega þegar farinn að undirbúa sig undir að svara kalli Viðskiptaráðs sem á dögunum krafðist þess að ríki og sveitarfélög seldu arðbærar eignir sínar fyrir 800 milljarða.

„Skoðanakannanir" að hætti Viðskiptaráðs.

Og nú um helgina leggur Viðskiptaráð áherslu á kröfur sínar með tilvísan í „skoðanakannanir" sem alla vega við fyrstu sýn virðast ekki með öllu óvilhallar. Til dæmis þegar spurt er hvort fólk vilji að skattgreiðendur  fjármagni Íbúðalánasjóð. Hvernig væri að spyrja hvort heldur menn vildu sjálfbæran Íbúðalánasjóð sem í krafti stærðar tryggði hlutfallslega lága vexti, eða fara með íbúðalán landsmanna í  markaðsbankana sem að jafnaði hafa verið með hærri vexti á lánum til íbúðakaupa. En svona spyrja menn ekki hjá hjá Viðskiptaráði. Þar skirrast menn ekki við að rakka niður Íbúðalánasjóð jafnvel þótt enn séu glóðvolgar fréttirnar af 30 milljarða hagnaði bankanna af þjónustugjöldum!

Fjósamennskan í Arnarhvoli

Eins og útfarinn fjósamaður þekkir fjármálaráðherrann sínar kýr og veit nákvæmlega hver nytin er í hverri þeirra. Augljóst er af fréttum að nú er verkefnið að koma sínum mönnum til mjalta undir gjöfulustu kúnum.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, veit að Leifsstöð malar gull og hann veit að fríhöfnin þar gerir slíkt hið sama. Hún malar líka gull - fyrir ríkissjóð.

Tímabært að hleypa skjólstæðingunum að

Á nýafstöðnu þingi Samtaka iðnaðarins gerði fjármálaráðherrann, formaður Sjálfstæðisflokksins, að sérstöku umræðuefni hvort ekki væri tímabært að skoða hvort einkaaðilar kæmu að uppbyggingu sem framundan væri á Keflavíkurflugvelli.
Vísir.is hefur eftir ráðherranum  að þegar væri farinn af stað áfangi sem væri upp á meira en 20 milljarða og meira væri í kortunum.

Hver á 20 milljarða?

En augnablik. Er einhver með 20 milljarða í veskinu? Nei, svo er ekki. Sá sem réðist í þetta verk tæki peninga að láni á sama hátt og ríkið gerði ef það réðist í framkvæmdirnar. Báðir aðilar myndu síðan borga lánin og vextina með arðinum af starfseminni.
Þegar því væri lokið og lánin uppgreidd ætti sá gullkúna sem hefði haft hana á fóðrum.

Ekki rökbundið að þjóðin eigi alþjóðaflugvöllinn?

Bjarni Benediktsson segir það ekki vera rökbundna nauðsyn að ríkið eigi hvern einasta fermetra í flughlöðum og tengibyggingum sem einkaaðilar hafa sýnt áhuga á að fjármagna og jafnvel eiga og reka.
Fleira þurfi að skoða, er haft eftir fjármálaráðherranum á vísi.is til dæmis það hvort ríkið eigi að vera rekstraraðili að komuversluninni, eða hvort það eigi einfaldlega að bjóða slíka þætti út.

Viðskiptaráð fyrst, svo þjóðin

 Já, það er nefnilega það. Er það virkilega ekki „rökbundin nauðsyn" að ríkið eigi alþjóðaflugvöllinn okkar?
Að sjálfsögðu er það rökbundin hugsun og vitanlega á ríkið að eiga hvern einasta fermetra! Bjóða út komuverslunina, segir ráðherrann. Af hverju má samfélagið ekki njóta alls arðsins? Hvers vegna ættum við að þurfa að deila honum með félögum Bjarna Benediktssonar í Viðskiptaráði og Samtökum iðnaðarins? Hvers á þjóðin að gjalda?

Sjá frétt á visir.is:
http://www.visir.is/einkaadilar-komi-ad-uppbyggingu-i-keflavik/article/2015703099951