Fara í efni

VIÐTÆKIÐ EÐA HEYRNIN?


Sigurður Kári Kristjánsson er einn skemmtilegasti þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Ég er sjaldan sammála honum en hann er sjálfum sér samkvæmur og varðveitir enn glóð hins unga hugsjónamanns.
En einmitt vegna þess að hann er ekki aldurhniginn maður og ætti enn að hafa sæmilega heyrn þá brá mér við pistil hans í gær þar sem hann fjallar um viðtal við mig í morgunútvarpi RÚV í gær. Sigurður Kári taldi sig hafa heyrt mig vitna í ræðu Atla Gíslasonar sem enn hefði ekki verið flutt um ákærur á hendur fyrrverandi ráðherrum. ( Slóð hér: http://sigurdurkari.blog.is/blog/sigurdurkari/entry/1095255/) Þau ykkar sem nennið að hlusta á viðtalið (slóð hér: http://dagskra.ruv.is/ras2/4540403/2010/09/15/) munuð heyra að ég er að vitna í yfirferð Atla Gíslasonar hjá þingflokki VG - ekki framsöguræðu hans í þinginu. Kannski er útvarpsviðtæki Sigurðar Kára lélegt. Vonandi er heyrnin ekki að gefa sig.
Morgunblaðið er líka úr jafnvægi. Tókst að sýna æðruleysi - ekki alveg en næstum því - þegar 9-menningarnir voru ákærðir en ekki nú. Búið er að finna blaðagrein frá mér í febrúar árið 2002 (https://www.ogmundur.is/is/greinar/haestirettur-afryjunarheimildir-og-mannrettindi ) sem  átti að sýna að ég hefði nú orðið viðskila við samvisku mína - það er með hlíðsjón af því sem ég sagði í þessari blaðagrein. Svo kom umfjöllun í dag þar sem mér gafst kostur að svara þessum aðdróttunum. Þarna stóð Morgunblaðið sig vel enda með marga vandaða blaðamenn innanbúðar. Hér að neðan er umfjöllun Morgunblaðsins í dag:

Mbl. 16.09.10 
»Þetta eru tvö gerólík mál«
Fyrir átta árum flutti Ögmundur Jónasson, núverandi ráðherra dóms- og mannréttindamála, frumvarp um að felldar yrðu niður takmarkanir við því að sakborningar í opinberu máli gætu áfrýjað til Hæstaréttar. Er hann kominn í mótsögn við sjálfan sig ef hann styður tillögur um að ráðherrar verði dregnir fyrir landsdóm?

»Þarna er verið að rugla saman tveimur gerólíkum málum,« segir Ögmundur. »Árið 2002 lagði ég fram lagafrumvarp og skrifaði um það grein í Morgunblaðið þar sem ég mótmælti því að einstaklingur sem hlyti dóm í undirrétti í opinberu máli gæti ekki áfrýjað úrskurðinum til Hæstaréttar sem væri fjölskipaður dómur.

Í undirrétti er iðulega aðeins einn dómari sem dæmir en í Hæstarétti eru þeir fleiri. En settar hafa verið ákveðnar skorður við því að fólk geti áfrýjað dómum frá undirrétti. Þetta var gert vegna þess að hlaðist höfðu upp mál, menn vildu lækka bunkann. Ég mótmælti þessu og setti fram frumvarp um að tekið yrði fyrir þetta.

En það sem hér er um að ræða [þ.e. landsdóm] er að máli yrði vísað til fyrsta dómstigs, til æðsta dómstóls í landinu sem væri fjölskipaður dómur. Og það var þangað sem ég taldi að mál ættu að komast, í fjölskipaðan dóm á æðsta dómstigi. Síðan vil ég vekja athygli á því að í Mannréttindasáttmála Evrópu er ákvæði þar sem tekið er undir þetta sjónarmið mitt.

Mál danska ráðherrans Eriks Ninn Hansen, sem hlaut dóm fyrir landsdómi í Danmörku, kom fyrir Mannréttindadómstólinn. Hann vísaði því frá með nákvæmlega sömu forsendum og ég er að rekja hér.

Þetta eru tvö gerólík mál, þessu er ekki saman að jafna. Ég vildi tryggja að maður sem væri dæmdur gæti undir öllum kringumstæðum leitað til æðsta dómstigs þar sem dómurinn er alltaf fjölskipaður en strandaði ekki í undirrétti.«
Kristján Jónsson kjon@mbl.is