Fara í efni

VIÐVÖRUN...

...Stormur í fyrramálið - Ráðleggja foreldrum að fylgja börnum í skóla Veðurstofan varar við óveðri í nótt og á morgun. Mun hvessa í kvöld og er búist við suðaustan stormi, 15-23 m/s suðvestanlands með slyddu og síðan rigningu í nótt. Hvassari suðvestantil á landinu snemma í fyrramálið, allt að 28 m/s á stöku stað og vindhviður yfir 40 m/s við fjöll. Vindur verður í hámarki frá kl. 6 til kl. 9 eða um það leyti sem fólk heldur til vinnu eða skóla. Lægir mikið eftir hádegi. Á höfuðborgarsvæðinu má búast við að hvassast verði í efri byggðum Reykjavíkur og Kópavogs, og í Vallahverfinu og Áslandi í Hafnarfirði. Í öðrum landshlutum á morgun, má búast við suðaustan 15-23 og slyddu. Hvassar vindhviður við fjöll. Lægir mikið síðdegis. Einnig er búist er við mikilli úrkomu á morgun á Suðausturlandi og Austfjörðum. Á vef Vís er foreldrum ráðlagt að fylgja börnum sínum í skóla, taka tillit til vinds þegar bílhurðir eru opnaðar þar sem hætta er á að þær fjúki upp eða skelli á fólki og hafi í huga, sér í lagi við háar byggingar, að vindur getur feykt fólki til. Jafnframt er mikilvægt að huga að lausum munum sem eru utandyra. Undanfarið hefur norðanátt verið ríkjandi í þeim óveðrum sem gengið hafa yfir og margir því sett grill og annað lauslegt í skjól hlémegin við hús sín út frá norðanáttinni. Nú er spáð SA-stormi og mikilvægt að fólk endurmeti hvort lausamunir séu í skjóli út frá vindátt úr suð-austri.
Halli G. Magg