Fara í efni

VÍK FRÁ MÉR FREISTARI!

Heill og sæll Ögmundur.
Ísland er landið, landið þitt, landið okkar. Landið sem okkur er trúað fyrir, með hagsmuni komandi kynslóða að leiðarljósi.Þess vegna þarf alltaf að vera á varðbergi þegar erlend peninga-og hernaðarveldi bjóða gull og græna skóga gegn afnotum og jafnvel sölu á "Hólmanum" okkar. Minnumst Einars Þverægings, sem með staðfestu sinni og framsýni,kom í veg fyrir að ístöðulitlir, gráðugir og einfaldir valdsmenn þess tíma,afhentu Ólafi helga Noregskonungi Grímsey til sinna nota.
Einnig ber okkur að þakka þeim sem komu á sínum tíma,þ.e.í lok síðari heimsstyrjaldarinnar, í veg fyrir að ósk Bandarókjamanna um afnot af Keflavíkurflugvelli ti 99 ára, næði fram að ganga. Því miður náðu þeir þó stuttu síðar fram hluta af þeirri ósk sinni, þegar íslenskir landssölumenn þröngvuðu þjóðinni inn í Nató. Gerðu með því Miðnesheiði að vígbúnaðarhreiðri Bandaríkjamanna næstu áratugina, og studdu með því stefnu þeirra í útþenslu um allar jarðir þar sem þeir ginu og gína enn yfir auðlindum.
Nú, árið 2011, þegar kínverskur stórkapítalisti lætur hringla í gullinu sínu, kikna í hnjáliðunum jafnvel ráðamenn þjóðarinnar, og eru tilbúnir að selja til hans hluta af landinu okkar sem þeim hefur verið trúað fyrir. Einhvern tíma hefði slíkt flokkast undir landráð. Ögmundur, stöndum fast í fætur gegn allri sölu á landinu okkar, hvort sem svæðin heita Grímsey eða Grímsstaðir. Ég veit ekki betur en að íslensk lög banni landssölu til útlendinga. Hlýðum þeim lögum. Segjum eins og sá sem á fjallinu stóð fyrir meira en 2000 árum: Vík frá mér freistari.
Jóhann