Fara í efni

VIKA Í VÍN MEÐ ECRI


Í vikunni var ég í Austurríki í vinnuferð á vegum ECRI-nefndar Evrópuráðsins þar sem ég hef um nokkurt skeið verið fulltrúi Íslands. ECRI er skammstöfun fyrir European Commission against Racism and Intolerance, það er að segja nefnd gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi.

Ísland – Írland

Hvert hinna 47 aðildarríkja Evrópuráðsins eiga fulltrúa á nefndinni en á fimm ára fresti heimsækja, fyrir hennar hönd, tveir nenfndarmenn ásamt starfsmönnum Evrópuráðsins sérhvert aðildarríkja Evrópuráðsins. Hinn nefndarmaðurinn var írskur, Michael Farrell að nafni, þekktur mannréttindalögfræðingur í Írlandi en lengi vel hafði hann búið á Norður-Írlandi.
Þetta var fyrsta heimsókn mín fyrir ECRI nefndina en áður hafði ég verið svipaðra erindagjörða í Moldóvu í nokkur skipti fyrir hönd þings Evrópuráðsins og náðum við - samstarfskona mín var albanskur þingmaður - að skila af okkur skýrslu um niðurstöður af athugunum okkar áður en setu minni á þingi Evrópuráðsins lauk í janúar 2017, nokkrum mánuðum eftir að ég hvarf af Alþingi haustið 2016.

Réttarúrræði – ofbeldi og ógnandi orð – aðlögun

ECRI-nefndin var sett á laggirnar árið árið 1993 og tók til starfa 1994. Þetta er sjötta heimsóknar-hrinan á vegum nefndarinnar. Áherslan að þessu sinni hvílir á þremur meginþemun: a) aðgengi að réttarúrræðum, b) ógnandi haturs- og ofbeldisumræðu og c) aðlögun minnihlutahópa að samfélaginu.

Upplausn í stjórnmálum

Pólitískt ástand í Austurríki er í miklu uppnámi þessa dagana því harðlínu hægri ríkisstjórn Þjóðarflokksins (ÖVP) og Frelsisflokksins (FPÖ) féll þegar á daginn kom að vara-kanslarinn (sem jafnframt var formaður  FPÖ) hafði átt viðtal við rússneska konu sem kvaðst vera á vegum milljónera-pabba síns að bjóða hinum fyrrnenfnda og flokki hans fjárhagslega aðstoð sem að sjálfsögðu átti síðan að vera kaup kaups – greiði fyrir greiða. Vara-kanslarinn tók þessu kostaboði afarvel og taldi upp hvað hann vildi fá fyrir sinn snúð í dílnum og það var ekki síst að draga þyrfti úr áhrifum tiltekinna fjölmiðlamanna og að sjálfsögðu stjórnmálamanna og svo stykja sinn flokk og sína menn!

Vafasamar táneglur

Hann mun hafa sagt að hann hefði verið farinn að gruna þennan rússneska viðmælanda sinn um græsku, eða hvaða dóttir rússnesks milljarða-oligarks myndi hafa eins illa hirtar táneglur og þessi dama? Það sem hann ekki vissi var að ekki var nóg með að ekki væru neglurnar af auðkýfingsfóttur – það var rétt til getið hjá honum, heldur hafði hann verið tekinn upp á myndband sem síðan fór víða. Þar með var ríkisstjórnin sprungin. Sel þetta með táneglurnar ekki dýrar en ég keypti. En hitt er allt staðfest og skandallinn kenndur við spænsku ferðamnnaeyjuna Ibiza sem er undan ströndum Katalóníu.

“Fagmenn” við stjórn

Siðan var mynduð bráðabirgðastjórn sem þingið var ekki sátt við og nú stýra “fagmenn” ráðuneytum  sem ráðherrar.
Þessa viku höfum við einmitt hitt urmul af fagfólki, sumt úr ráðuneytum, skrifstofum umboðsmanna, síðan einng telsmenn hópa sem þykja standa utangarðs, fulltrúa mannréttindastofnana og einn daginn fórum til Sankt Pöltern, bæjarains þar sem flóttamenn söfnuðust hvað flestir saman þegar straumurinn var mestur árið 2015. Þá skiptu þeir hundruðum þúsunda og hlutskipti þeirra hið versta. Nú er í Sankt Pöltern enn starfrækt “móttökustöð” fyrir flóttafólk sem enn ber að garði en í miklu minna mæli en áður var. Þó eru um fimm hundrið hælisleitendur búsettir þar og sýndust okkur aðstæður þar góðar. Nú virðist af það sem þar áður var.

Mikil vinna eftir

Niðurstöður okkar liggja að sjáfsögðu ekki fyrir enda eigum við eftir að kynna okkur málin enn betur með því að kafa í skýrslur og önnur gögn sem við fengum í hendur og síðan leita eftir frekari upplýsingum. Mikið vatn á því eftir að renna til sjávar áður en við birtum niðurstöður okkar í skýrsluformi sem áður mun hafa farið um hendur stjórnvalda sem þannig gætu leiðrétt hugsanlegar stðareyndavillur og jafnframt bent okkur á ef þau telja okkur fara villur vegar. ECRI mun hins vegar eiga lokaorðið. Þar til erum við bundin trúnaði.

Mýsla í Sankt Pöltern

Þó er það ekki bundið trúnaði að eftir fund okkar með sérfræðingum í Sankt Pöltern kom að máli við mig kona sem sagðist vilja segja mér frá því að hún ætti íslenskan hest og hefði hún átt hann í tæpt ár, yndislega hryssu sem héti Mýsla. Væri það ekki rétt skilið að það þýddi lítil mús? Ég kvað svo vera, í heitinu væri vinsamleg skírskotun til lítillar músar.
Í Sankt Pöltern sem annars staðar hittum við það fólk sem hafði skipulagningu og framkvæmd á þeim sviðum sem athuganir okkar tóku til og var okkur alls staðar mjög vel tekið.

Lærdómsríkt

Um Austurríkisheimsóknina er það að segja að hún var mér afar lærdómsrík. Ég hitti að máli fjöldann allan af fólki og kynntist mörgu afar lofsverðu á sviði mannréttindamála.
Ekki var það þó einhhlítt. Það sem einkum er ástæða til að hafa áhyggjur af er að tíðarandinn – almenn viðhorf í samfélaginu - virðist vera að breytast að því leytl að öfgakenndar yfirlýsingar sem við flest myndum kalla, vekja ekki þá almennu fordæmingu í samfélaginu eins og áður mun hafa verið. Það sem verst er að ýmsir ráðandi stjórnmálamenn hafa talið sig geta náð vinsældum á kostnað hópa sem standa veikt.

Á leið á flugvöll

Athyglisverð þóttu mér orð leigubílstjórans sem ók mér út á flugvöll á heimleiðinni í gær. Hann var frá Serbíu. Sagði hann mér þegar hann heyrði um viðfangsefni mitt, meðal annars að kanna stöðu flóttamanna, að hann saknaði þess að aldrei væri spurt um orsakir flóttamannavandans. Sjálfur væri hann eins konar farandverkamaður, færi oft heim til Serbíu.
Hann kvaðst hafa verið í Belgrad þegar loftárásir NATÓ stóðu yfir. Margir hafi þá hlotið varanlegan skaða. Nú væru að fæðast börn með hvítblæði sem rakið væri til sprengjuregnsins, “eða halda menn að það hafi ekki áhrif þegar sprengjum er varpað á fólk í þeim mæli sem þarna var gert?” Og nú lét hann móðan mása, “... svo kom Írak, Líbýa, Afganistan og Sýrland, allir þessir staðir þar sem Bandaríkjamenn segjast vera að kynna lýðræði fyrir fólki. Þeir gera það með sprengjum og dauða. Og þá byrjar fólk að flýja. Um þetta er ekkert rætt, ekki orð um þá sem reka fólkið á flótta! Og pyntingaranar á Gaddaffi, enginn að tala um réttarríki þá. En eftir allar sprengjuárásirnar, drónana og vopnaflæðið til ofbeldis- og öfgaafla var þetta kórónað með því að sæma Obama, Bandaríkjaforseta, friðarverðlaunum Nóbels! Öll vitum við að þetta snýst bara um auðlindir en heimurinn dansar með, þegjandi og auðsveipur!”
Nú vorum við komnir út á flugvöll.