VIKIÐ FRÁ STEFNU
Frábær grein eftir Þorvald Þorvaldsson í Fréttablaðinu sem mér fannst mjög við hæfi að þú gæfir þér tíma til að lesa. " Þorvaldur Þorvaldsson skrifar: Það er vægt til orða tekið að forysta VG hafi valdið mörgum flokksfélögum og fleirum miklum vonbrigðum undanfarin ár og ekki síst eftir að flokkurinn settist í ríkisstjórn. Í upphafi stefnuyfirlýsingar flokksins segir að hann vilji beita sér fyrir róttækum þjóðfélagsumbótum almenningi til hagsbóta. Síðar segir: „Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill byggja upp lýðræðislegt og réttlátt þjóðskipulag grundvallað á virkri þátttöku almennings. Hreyfingin hafnar alræði markaðshyggjunnar og vill varðveita sjálfstæði þjóðarinnar og forræði yfir eigin auðlindum. Síðan flokkurinn settist í ríkisstjórn fyrir rúmum tveimur árum hefur forysta hans gengið í berhögg við þessa yfirlýstu stefnu í öllum aðalatriðum. Með aðildarumsókn að Evrópusambandinu. Með því að láta það viðgangast að nýtingarréttur á íslenskum auðlindum sé seldur á alþjóðlegum markaði. Með því að bjarga bönkunum og stórfyrirtækjum og færa þeim hundruð milljarða á silfurfati meðan velferðarkerfið er stórfellt skorið niður. Með því að láta markaðshyggjuna ráða ferðinni í efnahagsmálum með hagvöxt einan að leiðarljósi en ekki jöfnuð sem alltaf fer halloka á markaðstorgi auðvaldsins. Með því að taka ákvarðanir um grundvallarstefnu, stefnubreytingar og málamiðlanir í þröngum lokuðum hópi án lýðræðislegs samráðs við flokksfélaga eða almenning. Þessu þarf að snúa við og berjast fyrir algerri stefnubreytingu. Stefna þarf að því að auka vægi hins félagslega í íslensku hagkerfi á kostnað markaðsvæðingar. Þar ber að leggja áherslu á fjármálakerfið, velferðina og aðra innviði samfélagsins. Til að almenningur á Íslandi fái notið gæða samfélagsins þarf að koma í veg fyrir að örfámennur hópur sogi til sín öll verðmæti í samfélaginu gegnum bankana og nokkur einokunarfyrirtæki. Til að þessi stefnubreyting geti gengið fram er einnig nauðsynlegt að hindra að þjóðinni verði þröngvað inn í Evrópusambandið þar sem markaðshyggjan er meginlögmál. Og tryggja þarf félagsleg yfirráð þjóðarinnar yfir öllum náttúruauðlindum landsins. Landsfundur VG í lok október verður að leggja drög að stefnubreytingu af þessum toga til að flokkurinn eigi sér framtíð í íslenskri pólitík. Til að stuðla að því og fylgja eftir slíkri breytingu hef ég ákveðið að gefa kost á mér til formennsku í Vinstrihreyfingunni - grænu framboði á landsfundinum í lok október. Ég vona að samstaða náist í þessum anda á landsfundinum um endurreisn flokksins eftir nokkurt upplausnarskeið" heimild: http://visir.is/hvert-stefnir-vg--/article/2011710299983
Hermundur Sigurðsson