VÍKINGUR
25.03.2017
Ekki kann ég að leika á píanó og í gærkvöldi hlustaði ég í fyrsta skipti á tónsmíðar eftir Philip Glass fyrir píanó. Ég hafði því lágmarksþekkingu og engan samanburð.
En samt vissi ég þegar ég hlustaði á Víking Ólafsson leika verk eftir Philip Glass í Eldborg Hörpunnar að þau voru afburðavel leikin.
Svona er listin. Við vitum þegar hún umlykur okkur.
Þess vegna vissi allur Eldborgarsalurinn að hann var að hlusta á listamann eins og þeir gerast bestir. Viðbrögðin voru eftir því.
Ég sagði við vin minn ágætan, sem sjálfur leikur vel á píanó, og ég hitti í hléi, að Philip Glass höfðaði til mín. "Já, þegar Víkingur Ólafsson leikur verk hans", var svarað að bragði. Ekki ætla ég nánar út í þá sálma.
Það er gott til þess að vita að við skulum eiga listamenn sem eru færir um að hrífa okkur með sér og lyfta okkur á æðra plan eins og Víkingur Ólafsson gerði á tónleikum sínum. Eldborgarsalurinn rauði bókstaflega logaði af fegurð.
Ég hef stundum vísað í Víking Ólafsson og konu hans Höllu Oddnýju Magnúsdóttur sem verðuga merkisbera íslenskrar menningar. Eftirminnilegir eru sjónvarpsþættirnir sem þau smíðuðu saman.
Nú er Víkingur á fleygiferð um heiminn á meðan Halla Oddný fóðrar okkur á menningarefni í Kastljósi Sjónvarpsins.
Ítreka ég fyrri þakkir mína til þeirra:
https://www.ogmundur.is/is/greinar/uturdur-hollu-oddnyjar-og-vikings-heidars
https://www.ogmundur.is/is/greinar/rettlaeting-ruv