VIKTORÍA, KRISTJÁN FJÓRÐI OG EINAR BORGARSTJÓRI
Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 16/17.11.24.
Áður en vikið er að kóngafólkinu, þeim Viktoríu Bretadrottningu og Kristjáni fjórða Danakonungi annars vegar og borgarstjóranum í Reykjavík hins vegar, og spurt hvað kunni að sameina þau, er rétt að leita svara við annarri spurningu úr allt annarri átt. Hvað skyldi valda því að Reykjavíkurborg skuli auglýsa bílastæði borgarinnar til sölu?
Væntanlega er svarið við þeirri spurningu á þá leið að þetta sé gert í þeirri trú að til séu þeir sem gætu hugsað sér að kaupa bílastæði og græða á rekstri þeirra.
Öllu erfiðara er að finna það út hvers vegna borgin vilji selja ef rekstur bílastæða er svo góður bisness að á honum megi hagnast vel. Ég get mér þó til að það sé vegna þess að fyrir bílastæðin í kjallara Hörpu, sem nú eru auglýst til sölu, megi fá góðan pening og laga þannig bókhald borgarinnar tímabundið – en aðeins tímabundið líkt og ylja má loppnum tám stundarkorn með því að pissa í skóinn sinn eins og minnt er á í íslensku máltæki.
Sennilega blæs enginn iðnaður eins mikið út á Íslandi þessa dagana og rekstur bílastæða og það sem meira er, einkarekendur í þeim bransa eru teknir upp á því að sekta okkur sem gerumst sek fyrir brot á reglum sem þeir sjálfir setja.
Fyrirmyndirnar eru svo sannarlega til í mannkynssögunni um útvistun á heimildum til refsinga. Þannig fól breska krúnan einkafyrirtækinu East India Company öll yfirráð yfir gervöllum Indlandsskaga á 19. öldinni. Fyrirtækið blóðmjólkaði hráefnaauðugt og þéttbýlt landið, rak her og dómstóla og annað sem tilheyrði yfirráðum yfir nýlendubúum.
Kristján fjórði Danakonungur hafði farið öðru vísi að þegar hann setti lög um einokunarverslun í dönskum nýlendum í upphafi 17. aldar en sú skipan hélst í nær tvær aldir, til loka 18. aldar.
Kristjáni og ráðgjöfum hans hafði blöskrað hve þýskir Hansakaupmenn höfðu grætt mikið á Íslandsversluninni og vildi fá sína menn að kjötkötlunum. Kerfi Danakonungs byggði á því að veita tilteknum borgum og tilteknum verslunarfyrirtækjum einokun á nýlenduversluninni og skyldu einokunarleyfin vera tímabundin. Konungurinn bauð verslunina upp gegn árlegu gjaldi og var fyrsta einkaleyfið á Íslandsverslunina gefið út 20. apríl árið 1602 og átti að gilda í tólf ár.
Svo er að skilja að Reykjavíkurborg vilji feta þessar gömlu slóðir en sé heldur nær Viktoríu Bretadrottningu en Kristjáni Danakóngi í sinni útfærslu. Danski kóngurinn bauð nefnilega verslunarleyfin upp tímabundið sem áður segir, en Viktoria drottning fól á hinn bóginn allt í hendur Austur Indía félaginu ótímabundið. Og þarna er borgarstjórinn okkar.
Hann virðist vilja setja bílastæðin í borginni alfarið og ótímabundið undir handarjaðar einkaaðila, allan pakkann stimplaðan með stjórnarskrárvörðum eignarrétti. Greinilegt er að bílastæðin undir Hörpusvæðinu, sem teygja sig eitthvað undir miðborgina, eru aðeins byrjunin. Á vefsíðum borgarinnar má sjá að borgin búi sig undir að selja bílahús og fleiri stæði en í Hörpunni.
En nú spyr ég borgarstjórann beint: Hvernig væri að láta gamla arfleifð, sem byggist á því að gefa útvöldum veiðileyfi á landsmenn, sigla sinn sjó og horfa þess í stað til þess sem Íslendingar hafa oft gert svo ágætlega - að reka það sem almennings er í þágu þessa sama almennings og einskis annars?
-----
Athygli er vakin á því að hægt er að gerast áskrifandi að fréttabréfi þessarar heimasíðu á slóð sem hér er að finna: https://www.ogmundur.is/
Fréttabréfið er sent aðeins endrum og eins til áskrifenda þeim að kostnaðarlausu að sjálfsögðu.