VILHJÁLMUR Á HÁLUM ÍS – EN ÓSKAÐ VELFARNAÐAR
Ég vil gjarnan óska Vilhjálmi Egilssyni, nýjum framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, velfarnaðar í starfi. Vilhjálmur er vanur maður eins og sagt er sem kann mikið fyrir sér. Um árabil var hann hagfræðingur Vinnuveitendasambandsins eins og SA kallaðist þá, síðan framkvæmdastjóri Verslunarráðsins og jafnframt alþingismaður. Nú síðast gegndi Vilhjálmur svo embættii ráðuneytisstjóra í sjávarútvegsráðuneytinu. Hann er frjálshyggjumaður af öllum lífs og sálarkröftum en ég get vottað af kynnum af Vilhjálmi í starfi hans í Efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, sem hann stýrði um langt skeið, að hann var reiðubúinn að hlusta á öll sjónarmið og gefa mönnum kost á að færa rök fyrir sínu máli. Og þótt Vilhjálmur stæði á grunnprinsippum sínum var hann samningsfús með hugann opinn – laus við vanahugsun – eða hvað?
Því miður fæ ég ekki betur séð en hinn nýi framkvæmdastjóri hafi orðið vanahugsun Samtaka atvinnulífsins að bráð. Sýn SA á heiminn hefur um áratugaskeið verið undirorpinn rótgróinni vanahugsun: Allt illt er hinu opinbera að kenna og allt sem úrskeiðis fer á vinnumarkaði tengist á einhvern hátt opinberum starfsmönnum.
Fyrir fáeinum dögum hóf Vilhjálmur upp raust sína og talaði um “stórútgáfu sveitarfélaganna á innistæðulausum launaávísunum”. Þar átti Vilhjálmur við launahækkun til handa lægst launaða fólkinu. Undir þetta tekur síðan aðstoðarframkvæmdastjóri SA, Hannes G. Sigurðsson , í dag og grætur það ranglæti að láglaunafólki á hjúkrunarstofnunum skuli nú vera nóg boðið – og hyggist segja upp störfum verði kjör þess og vinnuaðstæður ekki bættar.
Það væri fróðlegt að heyra frá þessum herramönnum hvort aldrei hafi hvarflað að þeim að á almennum launamarkaði kunni einnig að hafa átt sér stað launaskrið. Á hinn bóginn mætti einnig spyrja hvort það versta sem hent gæti íslenskt samfélag væri ef takast mætti að rétta hlut lægst launaða fólksins á hjúkrunarheimilum, sjúkrastofnunum og sambýlum fyrir fatlaða?
Ætla mætti að SA liti á það sem forgangsverkefni að halda kjörum þessa fólks niðri því jafnan þegar grunur leikur á að eitthvað kunni að vera að þokast í kjarabaráttu þessara hópa er rekið upp ramakvein.
En hvað þykir SA um launaskriðið hjá hátekju-Íslandi? Aldrei heyrist orð um það. Þar eru mánaðarlaunin ekki talin í tugum eða hundruðum þúsunda, heldur milljónum, milljónatugum og látum við þá milljarðamæringana - sem maka nú krókinn sem aldrei fyrr - liggja á milli hluta.
Ég veit að hinn nýi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins er réttsýnn maður. Ég er hins vegar hræddur um að hann komist ekki langt með réttlætið fjötraður í vanahugsun samtaka sinna. Upp úr hjólförunum Vilhjálmur! Beittu þér fyrir því að samtök atvinnurekenda láti af leiðigjörnu sífri sínu og nöldri um opinbera starfsmenn.