VILHJÁLMUR TIL BJARGAR?
Birtist í 24 Stundum 14.02.08.
Síðastliðin ár hafa fréttir af manneklu innan almannaþjónustunnar - á velferðarstofnunum og í löggæslunni - orðið æ tíðari. Öllum ber nú saman um að ástandið hafi aldrei verið verra. Ef ekkert er að gert blasir við neyðarástand á grunnstofnunum velferðarsamfélagsins.
Þetta bitnar á þeim sem síst skyldi, börnum, öldruðum, veikum og fötluðum, auk þess sem starfsfólki er boðið upp á að vinna undir ólíðandi álagi og bágum kjörum. Til verður til vítahringur: Fólk flýr bágborin kjör, úr verður mannekla, sem aftur eykur á álagið. Og starfsfólkið leggur á flótta.
Kjarakannanir hafa sýnt að gliðnun hefur orðið í kjaraþróun á milli almenna markaðarins og almannaþjónustunnar á undanförnum misserum, almannaþjónustunni í óhag.
Við þessu þarf að bregðast í komandi kjarasamningum. Sú ábyrgð hvílir á ríkisvaldinu að búa starfsfólki sínu kjör sem tryggja að hægt sé að manna starfsemina. Í aðdraganda síðustu Alþingiskosninga og einnig nú í haust hafa ráðherrar og þingmenn innan beggja stjórnarflokkanna eindregið lýst því yfir að þau styðji drjúgar kjarabætur í almannaþjónustunni í komandi kjarasamningum. Að þessu er meira að segja vikið sérstaklega í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar. Samningar eru lausir gagnvart ríkisstarfsmönnum í vor og bæjarstarfsmönnum í haust, og nú reynir á að staðið sé við stóru orðin.
Vill fría ríkisstjórnna ábyrgð
Síðustu daga hefur hins vegar dregið til þeirra tíðinda að framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Vilhjálmur Egilsson, virðist reyna að taka sér það hlutverk að fría ríkisstjórnina ábyrgð í kjaramálum. Hann hefur lýst því yfir opinberlega að atvinnurekendur muni hvetja ríkisstjórnina til að hlíta í einu og öllu því sem SA komi til með að semja um við sína viðsemjendur. Hvað felst í þessu?
Annars vegar er þetta krafa um að ríkisstjórnin virði að vettugi samningsrétt sinna viðsemjenda. Hins vegar er þetta krafa um að ríkisstjórnin svíki gefin fyrirheit um að bæta verulega kjör stétta innan velferðaþjónustunnar, en einsog að framan greinir á hún orðið í erfiðleikum með að reka sig vegna manneklu.
Hvað vakir fyrir Samtökum atvinnulífsins? Getur það virkilega verið að atvinnurekendur séu að hjálpa ríkistjórninni við að svíkja viðsemjendur sína og hundsa samningsrétt þeirra? Er Vilhjálmur Egilsson að skera ríkisstjórnina niður úr snöru loforða um kjarabætur, og axla ábyrgð fyrir hennar hönd?
Það er með ólíkindum að Samtök atvinnulífsins gefi frá sér yfirlýsingar sem þær sem Vilhjálmur hefur látið frá sér fara. Með slíku forræðisvaldi á væntanlega að múlbinda launafólk innan almannaþjónustunar og þagga niður kröfur þess um betri kjör. Greinilegt er að samtök atvinnurekenda leggja nú allt kapp á að fá ríkisstjórnina til að samþykkja að hvergi verði komið til móts við kjarakröfur launafólks innan almannaþjónustunnar umfram það sem Samtökum atvinnulífsins þóknast. Þannig er ríkisstjórninni ætlað að hundsa samningsrétt BSRB og annarra samtaka sem semja fyrir launafólk innan almannaþjónustunnar.
En ábyrgðin er hjá ríkisstjórninni
Ráðherrar ríkisstjórnarinnar mega hins vegar vita að þegar nær dregur samningum verður gengið eftir því að stjórnvöld axli ábyrgð sína gagnvart stofnunum þar sem starfsfólk er á flótta undan bágum kjörum.
Kröfur samtaka opinberra starfsmanna um bætt kjör til handa þeim sem halda uppi grunnstoðum velferðarsamfélags á Íslandi munu ekki verða svo auðveldlega þurrkaðar út af borðinu. Ríksstjórninni nægir ekki að henda sér í faðm Samtaka atvinnulífsins. Bæði í höfuðstöðvum SA og í Stjórnarráðinu er rétt að haft sé á bakvið eyrað að það er á verksviði annarra en Vilhjálms Egilssonar að standa við gefin loforð ríkisstjórnarinnar.