Fara í efni

VILJA EKKI BISKUP Í KLÚBBINN

MBL
MBL

Birtist í helgarblaði Morgunblaðsins 23/24.12.17.
Prestar heyra undir Kjararáð og þar með biskup. Prestafélagið færir rök fyrir launakröfum. Biskupsstofa er beðin um greinargerð um störf biskups. Nú heitir það að biskup hafi skrifað og beðið um launahækkun, en þetta er samhengið og ómaklegt að leggja í það annarlegan skilning. En biskup þykir liggja vel við höggi, jafnvel betur en allir forstöðumennirnir, dómarar, alþingismenn og ráðherrar, sem heyra undir Kjararáð. Mér sýnist biskup Íslands, séra Agnes M. Sigurðardóttir, ætla að verða ýmsum sannkölluð himnasending inn í kjaramálaumræðuna.

Það sem síðan gerist er að Kjararáð kemst að niðurstöðu í samræmi við þau lög sem því er gert að starfa samkvæmt. Kjararáði er ætlað að leita samsvörunar í sambærilegum störfum á almennum markaði. Kjaramyndin hjá hinu opinbera á með öðrum orðum að spegla almenna markaðinn eftir því sem kostur er. Það gerir hún náttúrlega ekki. Á almennum markaði eru stórir hópar fjármálafólks og alls kyns stjóra með miklu betri kjör en skjólstæðingar Kjararáðs. En Kjararáð reynir eftir bestu getu að innleiða samsvarandi misrétti hjá hinu opinbera og er í þjóðfélaginu almennt. Það er lögbundin skylda þess.

En er það þá þannig að kjara-elíta Íslands vilji ekki skjólstæðinga Kjararáðs í sinn klúbb? Sennilega er það svo og segir hún þá gjarnan - og byrjar að berja sér - að það séum jú  „við", skattgreiðendur, sem borgum brúsann. En nú leitar velgjan upp eftir vélindanu því auðvitað erum það við öll, þegnar samfélagsins, sem borgum líka kjör markaðselítunnar. Það gerum við i gegnum vexti, álagningu í verðlagi, leigu og reyndar einnig með beinum stuðningi í vildarkjörum og kvótakerfum. Þannig verða ofurkjörin til.

En þegar allt kemur til alls snýst þetta ekkert um kjör og þeim mun síður um kjararéttlæti. Bara vald. Það er valdið sem þröngur hópur ætlar sjálfum sér með því að fá í sínar hendur yfirráð yfir allri launaþróun. Þau kalla það SALEK. Það þýðir að þau sem sitja við SALEK borðið megi ein ráða launabreytingum í landinu. Jöfnuður skiptir þar engu máli. Enda sjálf á sömu, og í sumum tilvikum, miklu hærri launum en það fólk sem bakföllin eru nú tekin yfir. Ef SALEK-valdinu væri í alvöru beitt til að jafna kjörin í landinu myndi ég ekki skrifa þessa grein. 

En nú kemur að rúsínunni í pylsuendanum. Í lögunum um Kjararáð segir að ráðið skuli gæta þess að með ákvörðunum sínum verði stöðugleika ekki stefnt í hættu.

Þetta hefur verið gripið á lofti. Frægt að endemum var þegar forseti ASÍ sagði síðastliðið vor, að kjarasamningar við kennara á liðnu ári, hefðu verið umfram leyfileg mörk, en yrðu látnir átölulausir að þessu sinni "en ekki til frambúðar þó." En bætti síðan við, að "félagspólitískt vega úrskurðir Kjararáðs mun þyngra en hinir samningarnir"!

Myndin verður sífellt skýrari: Mál málanna er stöðugleiki sem fæst með því að róa fólk innan verkalýðshreyfingarinnar. Það verði best gert með því að "barátta" forsvarsfólksins skili árangri, topparnir hjá ríkinu verði lækkaðir. Þannig megi sefa láglaunafólkið og gera það þannig fráhverft baráttu. Og undir þetta taka allir sem sæti eiga við SALEK borðið, "óheppilegt" segir fjármálaráðherra um ákvarðanir Kjararáðs án þess þó að sýna nokkurn vilja til ráðstafana til að draga úr kjaramun með ríflegri hækkun til öryrkja og láglauna- og millitekjufólks. Það er þó í hans valdi að gera.

Ekki harmaði ég að kjarasamningum yrði sagt upp en þá á réttum forsendum. Hvernig væri krafa um að enginn yrði á lakari kjörum en sem næmi þriðjungi af meðaltali framkvæmdastjórnar SA og hjá ríkinu þriðjungi af kjörum forseta Íslands?

Vandinn er ekki að ákvörðun Kjararáðs valdi uppnámi - uppnámið er meira að segja gott. Það er misréttið sem er slæmt!

Marg-milljón króna fólkinu þykir nú gott að geta látið sig hverfa í skuggann af biskupi Íslands. Kannski væri rétt að líta á þetta sem góðverk biskupsins á jólum, að gerast haldreipi forkólfa á vinnumarkaði svo þeir fái frið til að handleika reglustikuna í stað þess að þurfa að velkjast um í ólgusjó verkalýðsbaráttunnar.

Við getum þó varla ætlast til þess að Agnes M. Sigurðardóttir, biskup Íslands líti þannig á skeytin sem henni eru send. Hún er nefnilega ekki bara biskup. Hún er líka manneskja eins og við öll.

Sjá einnig Eyjuna: http://eyjan.pressan.is/frettir/2017/12/23/vilja-ekki-biskup-i-klubbinn/