VILJA REISN Í UMRÆÐUNA EÐA KANNSKI EKKI
Ekki trúi ég öðru en að nú fari í hönd lífleg umræðaum matvælaframleiðslu og framtíð landbúnaðar á Íslandi.
Þingmaður og fréttamaður hafa gefið upp boltann.
Þetta eru þeir Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og Þorbjörn Þórðarson, fréttamaður.
Vilhjámur fór nýlega háðulegum orðum um íslenskan landbúnað í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni; sagði alltof mikið gert úr meintum gæðum íslenskrar landbúnaðarframleiðslu; hún væri í hnignun og væri fráleitt að tala um landbúnað sem einhvern vaxtarbrodd í íslensku atvinnulífi. Kvaðst hann standa við fyrri ummæli sín þess efnis að landbúnaður teljist varla til atvinnuvega þar sem langstærstur hluti tekna hans komi úr beingreiðslum.
Þarna kvað við svipaðan tón og hjá Þorbirni Þórðarsyni, fréttamanni, sem þó gengur lengra í markaðshugsun sinni. Honum finnst landbúnaðarframleiðsla því aðeins í lagi að afurðirnar seljist á markaði án stuðnings: „Það er virðingarvert að lifa á því sem landið gefur en hvernig líf er það að geta ekki verið án meðgjafar meðbræðra sinna? Að þurfa sífellt að taka við beinum og óbeinum greiðslum frá skattgreiðendum? Er það líf með reisn?"
Nú er það svo að í flestum löndum - og öllum löndum sem við helst viljum bera okkur saman við - er reynt að stuðla að því að fólk, sérstaklega ungviði í uppvexti - neyti heilnæmrar fæðu, drekki t.d. mjólk frekar en kók. Þess vegna styrkjum við neytendur með því að hafa verð á heilnæmri matvöru ekki hærra en svo að þeir geti ráðið við að hafa hana á borðum til daglegrar neyslu. Við niðurgreiðum því mjólk en ekki kók.
Auðvitað væri hægt að láta markaðinn alveg um þetta. Núverandi ríkisstjórn gekk nýlega fram fyrir skjöldu og lækkaði sykurskatta til að lækka gosdrykkjaverð. Markmiðið var yfirvegað og um augljósa neyslustýringu að ræða. Auðvitað væri hægt að ganga að íslenskum landbúnaði dauðum á skömmum tíma með því að svipta hann öllum vörnum og opna fyrir innflutning á fjöldaframleiðslu erlendis frá. Markmiðið væri þá að fá hingað í verslanir ódýrstu fæðu sem völ væri á.
En þarf ekki að skoða málið í víðara samhengi, og þá ekki síst horfa til hollustu, matvælaöryggs og atvinnustigs? Viljum við ekki hollustu ofar öllu, viljum við ekki landið í byggð; viljum við ekki búa við innlenda landbúnaðarframleiðslu? Ég vil það tvímælalaust.
Og ég mótmæli málflutningi af því tagi sem hér hefur verið vísað til og gengur út á það að koma inn sektarkennd hjá íslenskum bændum fyrir að vinna það þjóðþrifaverk sem þeir inna af hendi. Að ýja að því að þeir geti ekki leyft sér að bera höfuðið hátt vegna starfa sinna er yfirlæti af verstu sort.
Sannast sagna finnst mér lítil reisn yfir umfjöllum þeirra Vilhjálms og Þorbjörns og eflaust finnst mörgum sem eru sama sinnis og ég freistandi að leiða hana hjá sér sem ómálefnalega og jafnvel eitthvað þaðan af verra.
En þessi ummæli eru engu að síður dæmigerð fyrir umræður og yfirlýsingar sem er að finna víða í fjölmiðlum þessa dagana.
Ég hvet því bændur, stjórnmálamenn og fréttamenn til þess að taka yfirlýsingar af þessu tagi alvarlega og láta ekki leiða umræðu um íslenskan landbúnað út á málefnasnauðan berangur dólgafrjálshyggju. Þangað er ferðinni heitið. En þangað hygg ég að við fæst viljum halda eftir að málefnið í allri sinni vídd hefur verið brotið til mergjar og skoðað af alvöru og sanngirni.