VILJI LÖGGJAFANS SKÝR
Unnur Kristjánsdóttir, formaður nefndar um erlenda fjárfestingu, segir mig hafa farið með rangt mál í sjónvarpsfréttum RÚV í kvöld og segir að ég hafi fullyrt að íslensk lög heimili ekki að erlendir aðilar eigi í orkufyrirtækjum hér á landi. Þessi gagnrýni Unnar er rétt að því leyti að í þeim glefsum sem birtust af viðtali við mig mátti ráða einmitt þetta. Hið rétta er náttúrlega að hið sama gildir um íslenska fjárfesta og fjárfesta á hinu Evrópska Efnahagssvæði. Þannig að þegar rætt er um erlenda fjárfesta þá er verið að tala um fjárfesta utan EES. Út á það gengur hinn innri markaður, að mismuna ekki fjárfestum á honum. Um það stendur síðan deilan um skúffuna í Svíþjóð. Kanadíska fyrirtækið kom sér fyrir í henni til þess að njóta réttar sem evrópskir fjárfestar hafa.
http://www.ruv.is/frett/ogmundur-segir-ad-rifta-verdi-solu-til-magma
Þá er spurningin hvaða skorður eru reistar gegn „erlendum" fjárfestingum í orkuiðnaði. Um þetta hefur Evrópusambandið nýlega spurt okkur. Og við svörum með tilvísan í lög nr. 34/1991 um fjárfestingu erlendra aðila í atvinnurekstri.
http://evropa.utanrikisraduneyti.is/media/esb_svor/15%20-%20Energy/Ch.%2015%20-%20Energy-final.pdf
Hér er svarið á ensku á bls.31 (sbr,. ofangreinda slóð):
According to the Act on Investment by Non-Residents in Business Enterprises No 34/1991, only Icelandic citizens and other Icelandic persons are permitted to own energy exploitation rights as regards waterfalls and geothermal energy for other than domestic use. The same applies to enterprises which produce or distribute energy. Individuals domiciled in another member state of the European Economic Area and legal persons which are domiciled in another EEA member state have the same right.
Þarna kemur fram að greinarmunur er gerður á evrópskum fjárfestum og fjárfestum utan EES.
Í lögum nr. 34/1991 og skýringum með þeim kemur einnig skýrt fram að vilji löggjafans er að útiloka málamyndagerninga á borð við skúffufyrirtæki Magma Energy í Svíþjóð. Í greinargerð með lögum um erlendar fjárfestingar segir m.a.: "...Ástæðan fyrir því að íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum er í frumvarpinu skilgreint sem erlendur aðili er sú að þannig á að reyna að girða fyrir að erlendur aðili geti farið bakdyramegin inn á svið þar sem fjárfestingu erlendra aðila eru skorður settar. Ella gæti erlendur aðili fyrst stofnað eða fjárfest í atvinnufyrirtæki hér á landi sem þar með teldist íslenskur aðili og það fyrirtæki síðan fjárfest á umræddu sviði. " Það er þetta sem ég var að vísa til í yfirlýsingum mínum í kvöldfréttum RÚV og hef ég í ljósi þess sem hér stendur leyft mér að undrast niðurstöðu nefndarinnar sem Unnur Kristjánsdóttir veitir formennsku.
Lög nr. 34/1991
2. gr.
Í lögum þessum hafa eftirfarandi orð merkingu sem hér segir:
Erlendur aðili: Einstaklingur, búsettur erlendis, án tillits til ríkisfangs, félag, stofnun, sjóður eða annar lögaðili, sem á heimili erlendis, erlent ríki og ríkisfyrirtæki, svo og atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum. Einstaklingur telst búsettur erlendis ef hann á lögheimili erlendis eða á þar heimili samkvæmt skilgreiningu lögheimilislaga. Lögaðili telst eiga heimili erlendis ef hann er skráður til heimilis erlendis eða telur heimili sitt erlendis samkvæmt samþykktum sínum.
Íslenskt atvinnufyrirtæki : Atvinnufyrirtæki sem er með atvinnurekstur hér á landi og á heimili hér á landi, án tillits til þess hvernig rekstrarformi og eignarhaldi viðkomandi atvinnufyrirtækis er háttað. Atvinnufyrirtæki telst eiga heimili hér á landi ef það er skráð hér á landi, ef það telur heimili sitt hér á landi samkvæmt samþykktum sínum eða ef raunveruleg framkvæmdastjórn þess er hér á landi.
Atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum: Íslenskt atvinnufyrirtæki þar sem erlendur aðili eða aðilar eiga meiri hluta fyrirtækisins, svo sem meiri hluta hlutafjár eða stofnfjár, eða fara með meiri hluta atkvæðisréttar eða hafa með öðrum hætti raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi atvinnufyrirtæki.
Fjárfesting : Fjárframlag eða annað framlag til eigin fjár atvinnufyrirtækis eða kaup á eignarhlut sem fyrir er í atvinnufyrirtæki.
Erlend fjárfesting : Fjárfesting erlends aðila í atvinnurekstri hér á landi, án tillits til þess hvort um er að ræða nýtt framlag eða endurfjárfestingu á úthlutuðum arði eða hlut eða söluandvirði vegna fyrri fjárfestingar hér á landi.
4. gr.
... 3. Íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenskir ríkisborgarar sem eiga lögheimili hérlendis og lögaðilar sem eiga heimili hér á landi og eru að öllu leyti í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hérlendis mega einir eiga virkjunarréttindi vatnsfalla og jarðhita önnur en til heimilisnota. Sama á við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu.
Skýringar og athugasemdir
3.1.3. Virkjanir og rekstur orkuvera og vatnsvera.
Orkuver.
Samkvæmt orkulögum, nr. 58/1967, þarf leyfi Alþingis til að reisa og reka raforkuver stærri en 2.000 kw. Slíka heimild er m.a. að finna í lögum nr. 60/1981, um raforkuver. Til að reisa og reka raforkuver 200 -- 2.000 kw. þarf hins vegar leyfi iðnaðarráðherra. Í orkulögum er ekki fjallað um það sérstaklega hvernig með skuli fara ef erlendir aðilar hafa hug á að starfrækja fyrirtæki á sviði raforkuframleiðslu heldur er gert ráð fyrir að Alþingi og eftir atvikum iðnaðarráðherra taki um það sérstaka ákvörðun. Í orkulögum er einnig fjallað um dreifingu raforku. Sveitarstjórnir og Rafmagnsveitur ríkisins hafa samkvæmt lögunum forgangsrétt til að sinna þessu verkefni og getur iðnaðarráðherra veitt þeim einkarétt í því skyni. Að auki gera lög nr. 42/1983, um Landsvirkjun, ráð fyrir því að það fyrirtæki geti flutt og selt í heildsölu raforku til almenningsrafveitna og iðjufyrirtækja samkvæmt sérstökum samningum. Nýti sveitarstjórnir og Rafmagnsveitur ríkisins sér ekki þann forgangsrétt, sem þessir aðilar hafa samkvæmt lögunum, getur ráðherra veitt einstaklingum og lögaðilum einkarétt til raforkudreifingar á viðkomandi orkuveitusvæði. Lögin hafa ekki að geyma skilyrði um íslenskt ríkisfang eða heimilisfesti þessara aðila. Lög um eignarrétt og afnotarétt fasteignar, nr. 19/1966, takmarka hins vegar rétt erlendra aðila í þessu efni.
Um 3. tölul.
Hér er lagt til að virkjunarréttur vatnsfalla og jarðhita annarra en til heimilisnota verði eingöngu bundinn við íslenska ríkið, sveitarfélög, íslenska ríkisborgara sem eiga lögheimili hér á landi og íslenska lögaðila sem eiga heimili hér á landi og eru að fullu í eigu íslenskra ríkisborgara sem eiga lögheimili hér. Tekið er skýrt fram að sama eigi við um fyrirtæki sem stunda orkuvinnslu og orkudreifingu. Erlendir aðilar eiga þess því ekki kost að fjárfesta í atvinnufyrirtækjum á þessu sviði.
Um 2. gr.
Hér eru helstu hugtök skilgreind. Búseta einstaklings og heimili lögaðila eru lögð til grundvallar varðandi skilgreiningu á því hver teljist vera erlendur aðili í skilningi frumvarpsins. Þannig telst t.d. íslenskur ríkisborgari sem á lögheimili erlendis vera erlendur aðili. Er þetta í samræmi við þá stefnu sem fylgt er t.d. hjá OECD þar sem áherslan liggur á búsetunni en ekki þjóðerninu. Til erlends aðila telst og íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum, en þá er átt við að erlendur aðili eða aðilar eigi meiri hluta fyrirtækisins eða fari með meiri hluta atkvæðisréttar í því þótt minnihlutaeigandi sé eða hafi með öðrum hætti, svo sem með stjórnunarsamningi, raunveruleg yfirráð yfir viðkomandi atvinnufyrirtæki. Ástæðan fyrir því að íslenskt atvinnufyrirtæki undir erlendum yfirráðum er í frumvarpinu skilgreint sem erlendur aðili er sú að þannig á að reyna að girða fyrir að erlendur aðili geti farið bakdyramegin inn á svið þar sem fjárfestingu erlendra aðila eru skorður settar. Ella gæti erlendur aðili fyrst stofnað eða fjárfest í atvinnufyrirtæki hér á landi sem þar með teldist íslenskur aðili og það fyrirtæki síðan fjárfest á umræddu sviði. Sé hins vegar um að ræða íslenskt atvinnufyrirtæki sem íslenskir aðilar hafa yfirráð yfir þótt erlendir aðilar eigi jafnframt hlut í því eru ákvæði frumvarpsins ekki því til fyrirstöðu að slíkt fyrirtæki fjárfesti í öðru atvinnufyrirtæki hér á landi. Við mat á því hvort um fjárfestingu er að ræða getur það ráðið úrslitum hvort um er að ræða framlag til eigin fjár viðkomandi atvinnufyrirtækis. Lánveiting telst því ekki fjárfesting nema um sé að ræða lán í einhverju því formi sem skattyfirvöld viðurkenna eða úrskurða að flokka beri sem eigið fé viðkomandi fyrirtækis. Hér mundu einkum geta komið til álita svonefnd víkjandi lán. Auk þess sem nú er nefnt teljast kaup á eignarhlut sem fyrir er í atvinnufyrirtæki að sjálfsögðu vera fjárfesting þótt endurgjaldið renni þá ekki alltaf til fyrirtækisins sjálfs, heldur til þeirra sem áttu eignarhlut fyrir.