Fara í efni

VILL FLUGVÖLLINN ÚR VATNSMÝRINNI

Það eru tvær mikilvægar ástæður til að leggja flugvöllinn í Vatnsmýri niður:
1. Hagkvæmnisástæður. Vatnsmýrin er afar verðmætt land til uppbyggingar miðbæjarins og þéttingu byggðar.
2. Öryggisástæður. Það er varhugavert að staðsetja flugvöll í miðbæ stórborga. Við Reykjavíkurflugvöll hafa orðið alvarleg slys, flugvélar hafa hrapað í aðflugi, slys hafa átt sér stað í flugtaki og flogið hefur verið á hús í nágrenni við flugvöllinn. Flugtaks- og lendingarlínur eru þannig að þær liggja yfir þéttbýlustu svæði Reykjavíkur og Kópavogs og ekki má gleyma að flugvélarnar nánast lenda á þaki Alþingis og Ráðhússins í Reykjavík.
Hvort heldur að byggður verði nýr flugvöllur í nágrenni Reykjavíkur eða innanlandsflugið flutt til Keflavíkur, þá er hvor kosturinn fyrir sig betri en að viðhalda Reykjavíkurflugvelli. Bæta má samgöngur við Keflavíkurflugvöll og stytta þannig ferðatímann til og frá Reykjavík. Það er alveg ljóst að núverandi stjórnvöld eru ekki til í að leysa þessi mál enda stendur hugur þeirra fyrst og fremst til landsbyggðarinnar, þar sem hvert atkvæði vegur þyngra en hjá, að þessu leyti, mannréttindaskertum höfuðborgarbúum. Innanlandsfarþegar á landsbyggðinni virðast nokk sama um hagsmuni og öryggi borgarbúa og neita að ræða aðra kosti en áframhaldandi staðsetningu flugvallarins i Vatnsmýrinni.
Þess vegna má vel hugsa sér að Reykjavík, ein og sér eða með nágrannasveitarfélögunum, byggi flugvöll í næsta nágrenni við höfuðborgarsvæðið. Það yrði góð fjárfesting enda stæðu sveitarfélögin undir rekstri hans og hirtu arð af.
Pétur Kristjánsson