VILL SJÁLFSTÆÐISFLOKKURINN EKKI LÆRA AF REYNSLUNNI?
Birtist í Morgunblaðinu 25.04.07
Tvennt stóð upp úr í skilaboðum nýafstaðins landsfundar Sjálfstæðisflokksins. Áhersla á markaðsvæðingu orkugeirans og einkaframkvæmd innan heilbrigðisþjónustunnar. Þetta eru reyndar ekki nýjar áherslur Sjálfstæðisflokksins.
Það sem hins vegar vekur athygli er að Sjálfstæðisflokkurinn skuli neita að horfa til reynslunnar hvað þetta tvennt snertir.
Sem kunnugt er hafa fyrstu skrefin í átt til einkavæðingar orkugeirans þegar verið stigin. Og afleiðingarnar hafa þegar komið fram í stórhækkuðu raforkuverði. Fyrirmyndin er sótt til Evrópu en sem kunnugt er voru settar reglur og gefnar út tilskipanir á tíunda áratug síðustu aldar um að búið skyldi í haginn fyrir þessa þróun. Nú er að koma í ljós að hún hefur ekki gefið góða raun.
"Fíaskó" fyrir heimili og atvinnulíf
Í tímaritinu Verktækni sem samtök verkfræðinga gefa út er að finna afar athyglisverða umfjöllun um danska skýrslu sem segir markaðsvæðingu raforkugeirans hafa verið "fíaskó" fyrir notendur. Verð hafi hækkað um þriðjung, fyrirtækjum á markaði hafi fækkað með tilheyrandi fákeppni. Í tímariti verkfræðinga er rakið hvernig skýrsluhöfundarnir dönsku sýna fram á að raforkuverð hafi hækkað, miðað við fast verðlag, um 25% árin 2000–2005 til iðnfyrirtækja og um 33% til almennra raforkukaupenda. "Fullyrðingar um ávinning af frjálsum raforkumarkaði standist einfaldlega ekki. Þeir leggja til að Danir beiti sér fyrir því [...] að ESB semji ný raforkulög frá grunni." Í greininni í Verktækni kemur einnig fram að samkeppnisyfirvöld innan Evrópusambandsins taki undir þessa gagnrýni.
Þetta kemur heim og saman við aðrar rannsóknarskýrslur sem birtar hafa verið. Sjálfstæðisflokknum íslenska virðist hins vegar ekki koma það við þótt reynslan af þessum kerfisbreytingum sé slæm. Í ljósi þess leyfi ég mér að beina þeirri spurningu til kjósenda hvort þeim finnist rétt að kjósa til valda stjórnmálaflokk sem boðar stefnu sem allt bendir til að sé neytendum – jafnt fyrirtækjum sem öllum almenningi – óhagstæð. Finnst fólki það vera eftirsóknarverð framtíðarsýn að auðhringir á borð við Alcan og Alcoa eignist Landsvirkjun, Hitaveitu Suðurnesja og önnur orkufyrirtæki?
Sjálfstæðisflokkurinn vill einkarekið heilbrigðiskerfi
Í heilbrigðiskerfinu eru einnig uppi einkavæðingaráform. Fyrir nokkrum árum söðlaði Sjálfstæðisflokkurinn um í heilbrigðisstefnu sinni. Í stað þess að leggja áherslu á aukin notendagjöld innan velferðarþjónustunnar eins og flokkurinn hafði boðað var nú tekið að hamra á því að skattborgarinn ætti að borga en framkvæmdina ætti að einkavæða. Nú er það svo að heilbrigðiskerfið íslenska hefur að nokkru leyti verið kokteill í þessum efnum. Þar hefur farið saman einkapraxis og rekstur á félagslegum grunni (á vegum ríkis, sveitarfélaga og sjálfseignarstofnana á borð við Hrafnistu og SÍBS). Um þessa blöndu hefur til skamms tíma verið sæmileg sátt. En Sjálfstæðisflokkurinn vill meira. Meiri einkavæðingu.
Ef það er nú svo að færa eigi heilbrigðiskerfið inn á markaðstorgið í ríkari mæli en verið hefur verða menn að svara spurningum á borð við þessar:
1)Yrði það betra fyrir notendur þjónustunnar, það er að segja alla notendur, ekki einhverja útvalda?
2) Yrði það betra fyrir greiðendur þjónustunnar, hvort sem um væri að ræða sjúklinginn sjálfan eða skattgreiðendur almennt.
3) Yrði það betra fyrir starfsmenn almennt, ekki útvalda starfsmenn, heldur alla starfsmenn?
Ég leyfi mér að fullyrða að svörin við þessum spurningum yrðu í öllum tilvikum neikvæð ef farið yrði að vilja Sjálfstæðisflokksins og heilbrigðiskerfið einkavætt í meira mæli en þegar er. Þar horfi ég aftur til fenginnar reynslu. Ég horfi líka til viðhorfa í þjóðfélaginu en kannanir hafa sýnt að Íslendingar vilja ekki tvöfalt heilbrigðiskerfi eins og hætta er á að myndist með aukinni einkavæðingu.
Vel verði farið með skattfé
Sjúklingagjöld hafa vaxið jafnt og þétt á liðnum árum og eru nú komin í 17,5%. Þetta þýðir að tekjulítið fólk ræður ekki lengur við að leita sér lækninga. Vinstri græn eru með áform um að vinda ofan af þessum gjöldum þannig að greitt verði fyrir læknisþjónustu úr samneyslunni en ekki úr vasa sjúklinga. Það er hins vegar eðlilegt að skattgreiðandinn geri þá kröfu að vel sé farið með skattféð. Menn vilja að það renni markvisst inn í heilbrigðisþjónustuna en fari ekki í arðgreiðslur til aðila sem hyggjast gera sér velferðarþjónustu landsmanna að féþúfu. Rökrétt væri því að skattgreiðendur sameinuðust um að hafna einkavæðingaráformum Sjálfstæðisflokksins.