Fara í efni

Villandi umræða um lífeyrismál

Eins og við mátti búast hefur lífeyrisumræða síðustu daga orðið til þess að Pétur H.Blöndal og aðrir andstæðingar samtryggingarlífeyrissjóða eru komnir á kreik. Í  sunnudagsútgáfu Fréttablaðsins gerir hann harða hríð að lífeyrissjóðum starfsmanna ríkis og sveitarfélaga. Pétur H.Blöndal skal af þessu tilefni minntur á, að menn skyldu hugsa sig tvisvar um áður en lagt er til atlögu gegn starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga og reynt að hafa þeim lífeyrisréttindin eins og hann leggur til. Á árinu 1996 kom fram í þinginu skerðingarfumvarp sem olli þvílíkri mótmælaöldu að ríkisstjórnin átti ekki annarra kosta völ en draga það til baka og setjast að samningaborði með BSRB, BHM og Kennarasambandi Íslands. Þeir samningar leiddu til róttæks uppskurðar á því lífeyrisréttindakerfi, sem launafólk innan framangreindra samtaka á aðild að. Var það samdóma álit flestra þeirra sem hafa kynnt sér málin, að sú nýskipan lífeyrsmála sem þá náðist sátt um og lögfest var í ársbyrjun 1997, hafi verið framfaraspor.

Ekkert nýtt

Sú umræða sem fram hefur farið að undanförnu að frumkvæði Gylfa Arnbjörnssonar, framkvæmdastjóra ASÍ, er öll hin undarlegasta og er hún í bland tímaskekkja, rangfærslur eða í besta falli misskilningur.
Í fyrsta lagi er rangt, sem lesa má út úr umræðunni, að fram hafi komið einhverjar nýjar upplýsingar. Svo er ekki. Reglulega eru skilmerkilega settar fram ítarlegar tölur um skuldbindingar sjóðanna og hafa þær verið öllum opnar og meira að segja kappkostað af hálfu lífeyrissjóðanna og stjórnvalda að koma þeim á framfæri.

Tímaskekkja

Í umræðunni er ruglað saman gömlu og nýju og öllu hrært í einn graut. Fram til ársloka 1996 bjuggu opinberir starfsmenn, að uppistöðu til, við gegnumstreymiskerfi. Þetta kerfi var miklu hagstæðara fyrir ríkissjóð en oft hefur verið látið í veðri vaka. Í reynd léttu opinberu lífeyrissjóðirnir mjög á almannatryggingakerfinu auk þess sem fjármunir sem runnu til þeirra í formi iðgjalda nýttust til margvíslegra framkvæmda og uppbyggingar á fyrstu áratugunum frá stofnun þeirra, áður en farið var að greiða úr þeim að einhverju marki. Fyrir vikið var ljóst að standa yrði undir framtíðarskuldbindingum með sköttum enda byggði gegnumstreymishugsunin á því. Þótt undirritaður teljist ekki í hópi aðdáenda núverandi ríkisstjórnar verður það að segjast að hún hefur sýnt fulla ábyrgð varðandi framtíðarskuldbindingar lífeyrissjóðanna með reglulegum innborgunum. Þessu kerfi var hins vegar lokað fyrir öllu nýráðnu fólki auk þess sem stórir hópar fluttu sig yfir í hið nýsmíðaða lífeyriskerfi í ársbyrjun 1997. Hið nýja kerfi byggir á því að iðgjöld rísi undir skuldbindingum að öllu leyti.

Hvað vakir fyrir framkvæmdastjóra ASÍ?

Enda þótt allar þær tölur sem fram hafa komið að undanförnu hafi legið fyrir sem áður segir, er hitt óneitanlega nokkur nýlunda að þær séu settar fram með þeim hætti sem framkvæmdastjóri ASÍ gerir. Hann tínir fyrst til þegar áfallnar skuldbindingar, horfir síðan fjóra áratugi fram í tímann og bætir við öllum skuldbindingum sem líklegt er að safnist upp á þeim tíma og lífeyrissjóðirnir komi til með að þurfa að greiða út næstu þrjá áratugina þar á eftir eða fram til um 2070. Samanreiknaðri upphæð er síðan deilt á þjóðina og komist að þeirri niðurstöðu að hvert núlifandi mannsbarn skuldi milljón vegna lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna! Þetta er í ætt við hræðsluáróður og vandséð hvað vakir fyrir mönnum að setja málin fram með þessum hætti.

Árásum á lífeyriskerfið verður hrundið

Það máttu menn hins vegar vita að niðurrifsmenn myndu fara af stað eins og vikið var í upphafi þessa pistils. Pétur H. Blöndal og félagar ættu hins vegar að láta sér að kenningu verða reynsluna frá 1996. Launafólk mun ekki láta réttindi sín af hendi án átaka – reyndar svo mikilla átaka að menn skyldu fara varlega í ráðagerðum um skerðingu lífeyrisréttinda.