Fara í efni

VILLULJÓS FRÁ STJÓRNLAGARÁÐI?

Nú er stjórnlagaráðið farið að birta hugmyndir sínar. Í dag var rætt um það í fjölmiðlum að þingið myndi kjósa forsætisráðherra. Markmið breytingarinnar var að styrkja aðhaldshlutverk þingsins. Vandinn í dag er sá að þegar ráðherrar eiga að svara til ábyrgðar gagnvart þinginu hitta þeir fyrir pólitíska samherja sína því framkvæmdavaldið situr í skjóli þingmeirihluta. Þá má spyrja hvernig heimurinn verður ef nýja tillagan gengur eftir - hvað hefur þá breyst í þessu tilliti? Það breytist nákvæmlega ekki neitt. Þetta er enn eitt villuljósið sem er borið á borð til þess að leysa vanda þjóðarinnar. Meðal sem bragðast vel en hefur enga raunverulega verkan á sjúkdóminn. Það má ekki líta framhjá jákvæðum lyfleysuáhrifum sem lýstu sér þannig að þeim líður betur sem trúa því að þeir hafi læknast. Það er hinsvegar sama lækningin og við fengum þegar við áttum að verða fjármálamiðstöð heimsins og fleira í þeim dúr. Stöðumatið byggt á slakri greiningu og engin innistæða fyrir sjálfsmatinu. Nú leggjum við í hann aftur undir stjórn stjórnlagaráðsins og byggjum einstakt stjórnkerfi í sinni röð.
Árni V.