Fara í efni

VÍN Í MATVÖRUVERSLANIR: Í ÞÁGU VERSLUNAREIGENDA EÐA NEYTENDA?

Vín í matvöruverslanir
Vín í matvöruverslanir


Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins hyggst taka upp baráttu fyrir því að koma áfengi í hillur almennra matvörubúða. Í viðtali við mbl.is segir hann að  „Þetta bygg­ist meðal ann­ars á byggðarsjón­ar­miðum en svo er auðvitað sjálf­sagður hlut­ur að leyfa þetta." Og hann heldur áfram: "Ástæða þess að frum­varpið heim­il­ar sölu á öllu áfengi er sú að ef ein­ung­is væri heim­iluð sala á létt­víni og bjór skerðist þjón­usta við lands­byggðina. Ef þú leyf­ir allt sam­an geta minni versl­an­ir á lands­byggðinni selt þetta allt sam­an og þannig eykst þjón­ust­an. Með þessu eykst rekstr­ar­grund­völl­ur minni versl­ana í minni bæj­ar­fé­lög­um og annað slíkt." http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/07/10/sjalfsagdur_hlutur_ad_leyfa_thetta/

Mikið rétt. Hagnaður sem nú fer til að styrkja þjónustukerfi á vegum ríkisins færi nú inn til almennra verslana. En þær myndu varla allar blómstra. Ætla má að ÁTVR verslanir á landsbyggðinni myndu loka við þetta breytta fyrirkomulag - kannski alls staðar, það virðist alla vega markmiðið -  og viðkomandi starfsmenn yrðu þá væntanlega að leita annað um atvinnu. Ef til vill finnst mörgum það vera aukaatriði ef þjónusta ykist fyrir bragðið.

En myndi þjónusta batna? Og þá sérstaklega við landsbyggðina einsog fyrsti flutningsmaður tiltekur sérstaklega? Yrði reist sama krafa á hendur verslunum á landsbyggðinni og ÁTVR verslanir reisa nú sjálfum sér hvað varðar vöruúrval? Þær bjóða að lagmarki upp á 150 til 170 tegundir í minnstu búðunum úti á landi. Heldur Vilhjálmur Árnason í alvöru að verslunareigendur í Borgarnesi myndu bjóða upp á sama vöruúrval og ÁTVR verslunin þar gerir nú, verslun sem er öllum bæjarbúum auðveldlega aðgengileg? Ætla má að hið gagnstæða myndi gerast þar sem og víða annars staðar. Vöruúrval myndi minnka og þjónustan að því leyti verða lakari.

Það sem er líklegt að gerist líka við einkavæðingu er að verðið mun hækka og mest úti á landi. Kaupmenn hafa sagt að þeir geti ekki rekið áfengissöluna með ÁTVR álagningu. Ef ríkið vill halda sínum skatttekjum þá verða kaupmenn að hækka verðið til þess að dæmið gangi upp. ÁTVR er með 18% álagningu á léttvín og bjór og 12% á sterkt áfengi skv. lögum. Nú er álagning á tóbak hjá smásölum oft vel yfir 30%. Álagningin þar er frjáls. Ef álagning á áfengi verður svipuð og í tóbakinu þá hækkar verð á áfengi verulega og mest á landsbyggðinni.

Síðan eru það girðingarnar - selja skal á afmörkuðum svæðum, er okkur sagt, sérstökum þjófavörnum verði komið upp og bannað að selja eftir klukkan 20 segja flutningsmenn - af hverju? Ungt fólk á að sýna skírteini til að fá afgreiðslu. Og ungt fólk undir áfengisaldri má ekki afgreiða vín. Halda menn virkilega að minnstu versalnirnar á landsbyggðinni réðu auðveldlega við þetta? Auðvitað yrðu það stóru keðjurnar sem tækju söluna yfir, Hagkaup, Bónus, Krónan og aðrar ámóta keðjur - þær munu spyrja Vilhjálm og félaga hvers vegna þær megi ekki selja allan sólarhringinn, og hvers vegna þeim sé gert að setja upp girðingar og bása. Vilja menn virkilega forræðishyggju? Þannig verður fljótlega spurt.

En sem fyrsta skref yrðu þær yfir sig ánægðar með boðað áfengisfrumvarp. Eigendur Haga myndu klappa flutningsmönnum á kollinn. Þeir vissu sem er að þeir gætu hagað framboði eftir eftirspurn á hverjum stað, mikið úrval í þéttbýli, minna í strjálbýli, kannski nóg að hafa tvær, þrjár rauðvínstegundir og samsvarandi hvítar, síðan vodka, romm, viskí, gin og brennivín. Síðan ekki söguna meir.Færi eftir því hvað seldist best, óþarfi að íþyngja lagernum um of. Þetta væri gott fyrir þessa verslunareigendur, en varla fyrir neytendur. Og alls ekki á landsbyggðinni.

En kannski tækist þessum aðilum að koma meira brennivíni niður í þjóðina? Er það markmiðið? Fyrir hvern er verið að gera þetta? Það er íþyngjandi fyrir ríkissjóð að reka ÁTVR er fullyrt. Þetta er rangt. Hins vegar mætti halda því fram að með landsneti ÁTVR niðurgreiði þéttbýlið strjálbýlið og tryggi öllum sömu lágmarksþjónustu og úrval.  

Eitt er víst að ekki er þetta gert í þágu heilbrigðissjónarmiða, alls ekki til að auka úrval og þjónustu og því síður fyrir landsbyggðina. Allra síst hana. En stóru verslunarkeðjurnar verða eflaust ánægðar yfir nýfengnum liðstyrk á Alþingi Íslendinga.

En þetta er ekki búið og gert. Við verðum þarna einnig til staðar sem munum halda uppi málstað neytenda. Og kannski heilbrigðissjónarmiða í bland. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin er á okkar bandi. Hún vill aftengja sem kostur er, áfengi og gróðahyggju.